Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Enginn augljós arftaki Xi Jinping

25.10.2017 - 04:46
Erlent · Asía · Kína · Stjórnmál
epa06285361 Delegates stand during the closing ceremony of the 19th National Congress of the Communist Party of China (CPC) at the Great Hall of the People (GHOP) in Beijing, China, 24 October 2017. According to media reports on 24 October 2017, the
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Xi Jinping verður áfram leiðtogi kínverska Kommúnistaflokksins næstu fimm árin hið minnsta. Hann var kosinn á flokksþingi flokksins í Kína í nótt. Athygli vakti að enginn framtíðarleiðtogi var valinn, líkt og venjan er.

Xi leiðir einnig stjórnmálanefnd Kommúnistaflokksins. Li Keqiang, forsætisráðherra, heldur sæti sínu í nefndinni, en auk þeirra sitja Li Zhanshu, Wang Yang, Wang Huning, Zhao Leji og Han Zheng í nefndinni. Zhao Leji var einnig kynntur sem nýr formaður nefndar Kommúnistaflokksins gegn spillingu. Allir eru þeir á svipuðum aldri og Xi Jinping sjálfur, sem þýðir að enginn þeirra er líklegur til að taka við stjórnvelinum af leiðtoganum að fimm árum liðnum. Hefð er fyrir því að á öðru kjörtímabili leiðtoga sé framtíðarleiðtogi af næstu kynslóð valinn í stjórnmálanefndina.

Þá var Xi Jinping settur á stall með fyrrum leiðtogum, á borð við Maó Zedong, þegar nafn hans og hugmyndafræði, „Xi Jinping-hugsunin“ var fest í stefnuskrá flokksins. Hugmyndafræði fleiri formanna hefur verið fest í stefnuskrána, en Xi er sá eini fyrir utan Maó sem hefur fengið stimpilinn „hugsun“ hengdan við nafn sitt.