Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Enginn árangur á fundi flugvirkja

12.12.2017 - 18:30
Icelandair 757-200 TF-FIU
Vél Icelandair. Mynd úr safni. Mynd: BriYYZ - Flickr
Fundi flugvirkja með Icelandair hjá Ríkissáttasemjara var að ljúka. Óskar Einarsson, formaður Flugvirkjafélags Íslands segir að hann hafi verið með öllu árangurslaus. Boðað hefur verið til fundar á morgun klukkan 15:30.

Óskar vildi ekki veita fréttastofu viðtal að loknum fundinum en segir að enginn árangur hafi náðst í viðræðum síðustu daga. Ef ekki nást samningar hefst verkfall flugvirkja Icelandair á sunnudag 17. desember klukkan 6. Viðbúið er að mikil röskun verði á flugferðum Icelandair ef til verkfalls kemur. Töluverður fjöldi ferðamanna sækir landið heim um jól og áramót. Ráðgerðar eru um 700 flugferðir á vegum Icelandair frá 17. desember og til áramóta. Farþegarnir sem eiga pantað flug á þeim tíma eru um 10.000 talsins.