Enginn annar liggur undir grun eins og er

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íbúum Reykjanessbæjar er ekki bráð hætta búin vegna arsenmengunar en engu að síður er brýnt að draga úr styrk efnisins á svæðinu. Þetta segir sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun. Talsmenn United silicon telja að einungis hluti arsenmengunarinnar komi frá kísilverinu. Eitthvað komi annars staðar frá. Umhverfisstofnun segir ekkert annað fyrirtæki liggja undir grun eins og er en að þetta þurfi að rannsaka betur.

Súr grillykt í norðanátt

Eins og súr grillykt. Svona lýsa heimamenn lyktinni sem leggst yfir Reykjanesbæ, einkum þegar hann blæs úr norðri. Mengunin hefur í umræðunni verið tengd Kísilveri Sameinaðs sílíkons í Helguvík. Frá því verksmiðjan var gangsett í nóvember hefur ýmislegt gengið á. Að því er virðast krónískir byrjunarörðugleikar hafa sett svip sinn á starfsemina. Þegar fjórir mánuðir voru liðnir frá því starfsemin hófst höfðu yfir 300 kvartanir borist frá íbúum. Sumir lýsa líkamlegum einkennum, sviða í nefi og hálsi, höfuðverk og ógleði.

Reksturinn takmarkast við Ísabellu

Umhverfisstofnun hefur aldrei fylgst jafn grannt með nokkru stóriðjufyrirtæki. Í mars fyrirskipaði stofnunin að fara skyldi fram verkfræðileg úttekt á rekstri fyrirtækisins, úttektaraðilum verðut gert að rannsaka orsök lyktarmengunar og koma með tillögur að úrbótum á sviði mengunarvarna á kostnað United Silicon. Þar til niðurstaða úttektarinnar liggur fyrir verður rekstur fyrirtækisins takmarkaður við einn ljósbogaofn, Ísabellu, en starfsleyfi þess gerir ráð fyrir rekstri tveggja.

Þrenns konar frávik

Frávikin í rekstri verksmiðjunnar eru þrenns konar. Í fyrsta lagi er reykhreinsun ábótavant. Í öðru lagi er lyktarmengun talsverð en ekki var gert ráð fyrir slíkri mengun í starfsleyfi. Í þriðja lagi sýna niðurstöður nýrrar greiningar á þungmálmum og öðrum eiturefnum í svifryki frá verksmiðjunni að styrkur arsens í nágrenni verksmiðjunnar er tuttugufalt meiri en gert var ráð fyrir. Fyrirtækið sjálft gerði ráð fyrir að styrkur þess yrði um 0,32 nanógrömm á rúmmetra og umhverfisstofnun og skipulagsstofnun fannst ekki ástæða til þess að efast um það mat. Nú er ljóst að styrkurinn var verulega vanmetinn. Útlit er fyrir að mengunin gæti farið yfir viðmiðunarmörk á þessu ári en við mat á því er horft til ársmeðaltals og það má ekki fara yfir 6 nanógrömm á rúmmetra. Þetta þýðir að verksmiðjan má ekki spúa meira en 5,5 kílóum af arseni út í sitt nánasta umhverfi á ársgrundvelli. Upp á síðkastið hefur styrkur arsens mælst í kringum viðmiðunarmörkin, 6 nanógrömm á rúmmetra. Hæsta einstaka mæling var 6,9 nanógrömm á rúmmetra.

Upplifa sig sem tilraunadýr

Íbúar Reykjanessbæjar eru margir hverjir áhyggjufullir og upplifa sig sem tilraunadýr, að verið sé að tefla heilsu þeirra í tvísýnu. Yfir þrjúhundruð kvartanir hafa borist frá íbúum sem sumir finna fyrir líkamlegum einkennum, svo sem ógleði og sviða í hálsi. Arsen er þekktur krabbameinsvaldur. Ef fólk er útsett fyrir mikilli arsenmengun í langan tíma aukast líkur á því að það fái lungna- og húðkrabbamein. 

Íbúum ekki bráð hætta búin

Viðmiðunarmörk umhverfisstofnunar miðast við að líkurnar séu ekki meiri en einn á móti hundrað þúsund. Þetta þýðir að ef mengunin helst svipað mikil og hún er núna um árabil er hægt að áætla að líkurnar á því að íbúi í Reykjanesbæ fái lungnakrabbamein séu einn á móti hundrað þúsund. Niðurstaða fundar sóttvarnanefndar sem fram fór í dag var að íbúum væri ekki bráð hætta búin. Þórólfur Guðnason er sóttvarnalæknir. 

„Ég myndi segja að þessi mengun sem þarna mælist og hefur mælst frá því í október, nóvember. Hún eykur ekki mikið á þessa áhættu hjá íbúum í kring. Ef þetta héldi svona áfram í einhver ár og fólk andaði þessu að sér gæti áhættan aukist töluvert meira."

Áhættan sé í dag mjög óveruleg. Ekkert útlit fyrir að fólk í Reykjanesbæ fari að greinast með krabbamein í auknum mæli.  Ef styrkur efnisins væri um sexfalt hærri en hann er í Reykjanesbæ og mengunin væri til staðar áratugum saman mætti búast við því að líkur á lungnakrabba sjöfölduðust, segir Þórólfur.

Segja mengun líklega alltaf hafa verið innan viðmiðunarmarka

DV fjallaði um arsenmengunina síðastliðinn föstudag. Sameinað sílíkon brást við umfjöllun miðilsins með því að birta grein á vefsíðu sinni undir yfirskriftinni rangfærslur og hræðsluáróður. Þar segir meðal annars að styrkur arsens á svæðinu hafi mælst 1 nanógramm á rúmmetra áður en United Silicon hóf þar starfsemi. Það bendi til þess að útblástur frá verksmiðjunni hafi verið innan viðmiðunarmarka, líka í því undantekningartilfelli þegar styrkur arsens mældist 6,9 nanógrömm á rúmmetra. Í dag sendi fyrirtækið frá sér fréttatilkynningu þar sem rök voru færð fyrir því að ekki gæti öll mengunin komið frá verinu. 

Jókst áður en starfsemin hófst

 Orkurannsóknir Keilis hafa mælt styrk þungmálma á mælistöð við Hólmbergsbraut fyrir United silicon frá því í mars á síðasta ári og sent sýni út til Svíþjóðar til greiningar. Í tilkynningu United Silicon  kemur fram að mælingar íslenskra orkurannsókna sýni að styrkur arsens, As, hafi haldist stöðugur í kringum eitt nanógramm á rúmmetra fram til 16. september, þá hækkaði hann í rúmlega sex nanógrömm á rúmmetra og hefur haldist þar í kring síðan. Í september var starfsemin ekki byrjuð og engin losun, segir forsvarsmaður United Silicon.

Mynd með færslu
 Mynd: United silicon

Mengunin borist úr annarri átt?

Hæsta gildið, 6,9 nanógrömm á rúmmetra mældist í desember. Í fréttatilkynningunni segir að frá því í október og fram í lok desember hafi sunnanátt verið ríkjandi á svæðinu og vindar staðið í átt að verksmiðjunni, ekki frá henni. Þetta bendi til þess að upptök mengunarinnar sé að einhverju leyti finna annars staðar. Ekki sé hægt að fullyrða að öll arsenmengunin sé frá kísilmálmverinu, það megi ekki hrapa að ályktunum. 

Einhver prufukeyrsla í gangi

Sigrún Ágústsdóttir er sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun:

„Ég hef ekki gefið mér tíma til að skoða þetta efni sem þeir sendu frá sér í dag þannig að ég get ekki tekið af stöðu til þess. Tímabilið þar sem verður hækkun, áður en rekstur hefst, það þarf að rýna í það betur. Það er einhver prufukeyrsla í gangi á þessum tíma. Það getur líka þurft að skoða hvort það er í gangi uppskipun í kringum þessar dagsetningar. Það liggja ekki alveg fyrir niðurstöður hvað það varðar en umhverfisstofnun tengir þessar arsenniðurstöður engu að síður við þessa starfsemi." 

Og enga aðra starfsemi? 

„Nei"

Vilja helst að kísilmálmverinu verði lokað tímabundið

Umhverfisstofnun fundar með bæjarstjórn Reykanessbæjar á fimmtudag en bæjaryfirvöld hafa lýst því yfir að þau vilji loka verksmiðjunni þar til mengunarvarnir hafa verið lagfærðar. Umhverfisstofnun hefur úrslitavald. Sigrún segir að þrátt fyrir að losunin skapi ekki bráða hættu fyrir íbúa sé mikilvægt að ná henni niður. 

„Umhverfisstofnun vill fylgja því eftir og mun fylgja því eftir á næstu vikum og mánuðum að þessi losun fari niður. Við eigum von á upplýsingum um ráðstafanir fyrirtækisins á næstu dögum og erum að undirbúa þessa verkfræðilegu úttekt sem hefur verið ákveðin. Það þarf að rýna alla ferla til að komast að niðurstöðu um það hvernig mengunarefni myndast og þau áhrif sem greint hefur verið frá. Varðandi ákveðna þætti allavega er nauðsynlegt að það sé ákveðinn rekstur í gangi til að sjá nægilega vel áhrifavaldana. Þannig að málið er í sama farvegi áfram, það þarf bara að fylgja þessu eftir."

Það skýrist þá ekki endilega á fimmtudag, hvort það verður lokað eða ekki, heldur á næstu vikum?

„Já ég myndi segja það."

Engar sveiflur í kringum gangsetninguna

Það vekur athygli að engar sveiflur í arsenmengun er að sjá í kringum gangsetningu verksmiðjunnar í nóvember. Kristleifur Andrésson, stjórnandi öryggis og umhverfismála hjá United Silicon, segir að fyrst hafi hann velt því fyrir sér hvort mælibúnaður kynni að vera í ólagi en sænsku sérfræðingarnir hefðu fullvissað hann um að svo væri ekki. 

Bjóst Umhverfisstofnun við því að styrkur þeirra efna sem fylgst er sérstaklega með myndi aukast strax eftir gangsetninguna? 

„Það var búist við ákveðinni losun arsens en alls ekki svona mikilli og þetta er mjög nálægt því þegar fyrirtækið hefur starfsemi. Þessi tímasetning."

Segir Sigrún.

Þannig að þið tengið þetta prufum í aðdragandanum?

„Já, það þarf samt sem áður að greina það tímabil nánar en við sjáum að eftir að fyrirtækið hefur starfsemi er þetta nokkuð hátt og helst áfram þannig. Það eru ekki aðrar uppsprettur taldar líklegar á þessu stigi."

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi