„Enginn á að þurfa að sofa úti," segir Heiða

10.08.2018 - 18:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Enginn á að þurfa að sofa úti í Reykjavík, segir formaður velferðarráðs. Velferðarráð Reykjavíkurborgar ætlar að gera sérstakt átak í málefnum heimilislausra og utangarðsfólks. Neyðarskýli fyrir 15 manns og gistilheimili með 25 einstaklingsíbúðum verða sett á laggirnar. Fulltrúa Flokks fólksins sýnist borgin farin að girða sig í brók og að taka til hendinni. 

Ráðið hlustaði í dag á sjónarmið þeirra sem gæta hagsmuna þeirra sem höllum fæti standa. Vörður Leví Traustason framkvæmdastjóri Samhjálpar segist gríðarlega ánægður með fundinn með ráðinu í dag: 

„Vonandi verður niðurstaða eftir fundinn. Ég bara trúi því að nú vinni þau með þetta. Að þetta fari ekki bara oní skúffu heldur verði unnið með þetta.“ 

„Við lærðum auðvitað alveg gríðarlega margt nýtt. Heyrðum sko hvernig vandinn blasir við út frá mismunandi sjónarhornum. Við munum taka þetta allt saman saman núna og vinna áfram með. Nú er að hefjast stefnumótun. Henni verður lokið vel fyrir áramót,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir Samfylkingu, formaður velferðarráðs.

Meirihlutinn lagði til á fundi velferðarráðs síðdegis að auk þess að stofna stýrihóp um verkefnið, að komið verði á laggirnar neyðarskýli þar sem pláss verður fyrir 15 unga karla sem eru í harðri neyslu og að keypt verði gistiheimili með 25 einstaklingsíbúðum fyrir fólk í húsnæðisneyð. 

„Það eru auðvitað alger skilaboð frá þessum fundi að það eigi enginn að þurfa að sofa úti í Reykjavík. Það er rúm og pláss fyrir alla.“

Kolbrún Baldursdóttir Flokki fólksins sem sæti á í velferðarráði segir langt í land með að málefni heimilislausra séu komin í ásækjanlega farveg: 

„Ég held að það sé mikið að gerast núna og ég held að það sé mikið til vegna þess að við erum nýtt fólk komið hingað. Og við erum búin að vera býsna aktíf stjórnarandstöðuflokkarnir. Mér finnst núna vera kominn skriður á málin og ég sé ekki betur en að borgin ætli að fara að girða sig í brók og að taka til hendinni.“

Dæmi eru um að skjólstæðingar Samhjálpar dvelji á áfangaheimili samtakanna í fimm ár vegna ástands á húsnæðismarkaði. Skjólstæðingar Samhjálpar hafa aðeins efni á að leigja félagslegt húsnæði, þar sem biðin er óhemjulöng. Gert er ráð fyrir því að fólk sé á áfangaheimili Samhjálpar í tvö ár. Það er þó oft mun lengur þar vegna ástands á húsnæðismarkaði. 

„Þannig að hjá okkur eru það sem sagt tvö ár þar sem þau geta búið en þau verða oft, ef þau komast ekki áfram, hjá okkur verða þetta oft þrjú, fjögur og jafnvel fimm ár og það stoppar tannhjólið hjá okkur,“ segir Vörður Leví.

Heimilislausum fjölgaði um 95% í Reykjavík á fimm árum. Þeir voru 179 árið 2012 en 349 árið 2017. Samkvæmt skilgreiningu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins er fólk heimilislaust ef það býr á víðavangi, í gistiskýlum eða athvörfum eins og Kvennaathvarfi og á ekki afturkvæmt heim. Þá er fólk sem býr á stofnunum og hefur ekki húsnæði að dvöl lokinni skilgreint sem heimilislaust, sem og fólk sem vegna neyðar býr hjá fjölskyldu eða vinum eða í ólöglegu húsnæði. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi