Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Engin merki um að Hekla sé að bæra á sér

20.03.2014 - 12:27
Hamfarir · Innlent · Hekla
Mynd með færslu
 Mynd:
Engin merki eru um að Hekla sé farin að bæra á sér, segir jarðeðlisfræðingur hjá Almannavörnum. Í ráði er að auka upplýsingagjöf til ferðafólks sem leggur á fjallið. Fjölmiðlaumfjöllun um Heklu síðustu daga hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana.

Í hvert skipti sem minnst er á Heklu í fjölmiðlum hér á landi ratar það í erlenda miðla og í kjölfar þess koma svo, eins og kallaðar, fyrirspurnir til Veðurstofunnar og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. Það er engin furða, segir Björn Oddsson, jarðeðlisfræðingur og verkefnisstjóri hjá Almannavörnum. Þetta sé frægasta eldfjall landsins, að minnsta kosti fyrir Eyjafjallajökulsgosið. Áhrif þess gos hafi verið mikil þannig að það séu allir á tánum gagnvart eldfjöllum á Íslandi.

Björn segir að það sé ekkert sem bendi til þess að Hekla sé farin að bæra á sér núna. Það sé ekkert sérstakt sem hafi komið þessari umræðu af stað á mánudaginn. Hins vegar sé mikilvægt að oftar sé talað um Heklu og eldfjöllin á Íslandi  til þess að fólk sé á tánum.

Almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra hefur látið útbúa upplýsingaskilti sem sett verður upp við Heklu á næstu vikum. Björn segir að hugsunin á bak við það sé að fræða fólk um fyrirboða eldgosa, um viðvaranir sem verði sendar út og hvernig eigi að bregðast við þeim. Ef það komi upplýsingar frá Vesturstofu Íslands um að Hekla sé líkleg til að fara af stað þá verði farsíminn notaður til að senda út skilaboð til ferðamanna á þessu svæði um að Hekla gæti verið að fara að gjósa og þeir eigi þá vinsamlegast að yfirgefa svæðið.