Engin kona oddviti á átta listum NA-kjördæmis

Mynd með færslu
 Mynd:
Engin kona leiðir lista stjórnmálaflokks í Norðausturkjördæmi. Átta flokkar eru komnir fram og oddvitarnir eru allt karlar. Þrír flokkar til viðbótar ætla að bjóða fram í kjördæminu en hafa enn ekki sett saman lista.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, leiðir lista flokks síns í Norðausturkjördæmi eftir afgerandi sigur á kjördæmisþingi um helgina. Hann sigraði þar Þórunni Egilsdóttur, Líneik Önnu Sævarsdóttur og Höskuld Þórhallsson. Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra gaf einn kost á sér í oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins og leiðir þann lista og Einar Brynjólfsson framhaldsskólakennari sigraði í prófkjöri Pírata í kjördæminu.

Uppstillingarnefndir völdu bara karla

Stillt var upp á lista Samfylkingar, Vinstri grænna, Bjartrar framtíðar, Viðreisnar og Alþýðufylkingar. Logi Einarsson varaformaður er í fyrsta sæti hjá Samfylkingu, Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi formaður, leiðir lista VG, Preben Pétursson varaþingmaður er oddviti Bjartrar framtíðar, Benedikt Jóhannesson, stofnandi Viðreisnar, skipar fyrsta sætið í kjördæminu og Þorsteinn Bergsson leiðir lista Alþýðufylkingarinnar.

Talsmenn Dögunar, Flokks fólksins og Íslensku þjóðfylkingarinnar ætla sér að bjóða fram í kjördæminu, en listar eru ekki komnir fram.

Ein kona oddviti á þingi eftir síðustu kosningar

Uppfært 21.9.2016: Tvær konur voru í oddvitasæti í Norðausturkjördæmi fyrir síðustu Alþingiskosningar, þær Brynhildur Pétursdóttir fyrir Bjarta framtíð og Aðalheiður Ámundadóttir fyrir Pírata. Brynhildur ætlar að hætta á þingi eftir þetta kjörtímabil. Aðalheiður náði ekki kjöri. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi