Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Engin hátíð í ár nema skuldir verði greiddar

07.04.2019 - 18:57
Mynd: Kristján Þór Ingvarsson / RÚV
Tónlistarhátíðin Secret Solstice skuldar Reykjavíkurborg um tíu milljónir króna sem gera verður upp svo hægt sé að halda hátíðina í ár. Þetta segir formaður borgarráðs. Það komi á óvart að hátíðin skuldi erlendum listamönnum fé.

Bandaríska rokkhljómsveitin Slayer hefur stefnt tónlistarhátíðinni Secret Solstice fyrir að greiða sveitinni ekki um 16 milljónir króna í þóknun vegna tónleika hennar á hátíðinni í fyrra. Til stendur að halda hátíðina í Laugardalnum í fimmta sinn í sumar, í samvinnu við borgaryfirvöld, en búið er að tilkynna komu fjölmargra heimsþekktra listamanna á hátíðina. Borgarráð ætlar að taka fréttirnar af stefnu Slayer fyrir á fundi sínum á fimmtudaginn.

„Mér finnst leitt að heyra þetta,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs. „En þetta eru ekki nýjar fréttir í heildina, við vorum búin að heyra af því í byrjun árs að framleiðsluaðilar og tónleikahaldarar skulduðu fé hérna innanlands. En við vorum ekki búin að heyra af því á þessari stærðargráðu þannig að það er alveg nýtt fyrir okkur.“

Allt skoðað í heild

Reykjavíkurborg veitti á sínum tíma hátíðarhöldurum fimm ára vilyrði, sem rennur út á næsta ári, fyrir því að halda Secret Solstice. Hins vegar hefur borgin gert nýjan samning við hátíðarhaldarana á hverju ári, sem felur meðal annars í sér dagsetningar, öryggismál, hreinlætismál, lagaleg og fjárhagsleg atriði og fleira í þeim dúr. Þessi samningur hefur ekki enn verið undirritaður fyrir hátíðina sem á að fara fram í júní.

„Sá samningur lá fyrir í drögum í borgarráði í nóvember. Þar eru ýmsar forsendur, meðal annars að það verður að gera upp kostnað við borgina líka. Og það er ein af ástæðunum fyrir því að það er ekki búið að skrifa undir.“

Þórdís Lóa segir að skuldin við borgina sé um 10 milljónir króna og sé vegna hátíðarinnar í fyrra. Borgin geri þá kröfu að skuldin verði greidd, jafnvel þótt nýir aðilar séu komnir að rekstri hátíðarinnar.

Hvenær verður gengið frá samningi?

„Staðan er bara svolítið sú að það er ekki búið að ganga frá greiðslu við borgina. Það er fyrsta staða. Það verður ekkert gert fyrr en búið er að því, við förum ekkert að ræða þetta af einhverju viti fyrr en þá. En varðandi þessar nýju fréttir þá er þetta klárlega uppi á borðum hjá okkur og við erum að skoða þetta allt saman í heild.“

Hvað gerist ef þessi samningur er ekki undirritaður?

„Ef hann er ekki undirritaður, þá verður væntanlega engin hátíð,“ segir Þórdís Lóa.

Hér má sjá viðtalið við Þórdísi Lóu í heild sinni. - Mynd: Kristján Þór Ingvarsson / RÚV
Hér má sjá viðtalið við Þórdísi Lóu í heild sinni.