Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Engin atkvæðagreiðsla um lækkun kosningaaldurs

23.03.2018 - 19:55
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Ekkert varð af atkvæðagreiðslu á Alþingi í dag um frumvarp um lækkun kosningaaldurs til sveitarstjórna í 16 ár. Fundum Alþingis var frestað fram yfir páska á áttunda tímanum í kvöld. Flutningsmenn frumvarpsins hafa sagt að eftir páska verði of skammur tími til kosninga til að lögfesta frumvarpið og því má telja afar ólíklegt að það verði að lögum fyrir vorið.

Hópur ungmenna alls staðar að af landinu fyllti þingpalla við þriðju umræðu um frumvarpið í dag þar sem lagt var til að kosningaréttur til sveitarstjórna verði 16 ár en ekki 18 ár eins og nú er. Meirihlutinn segir að markmiðið sé að auka tækifæri ungs fólks til að hafa áhrif á samfélagið sem virkir og ábyrgir þátttakendur og efla lýðræðisþátttöku.

Andstæðingar þess að samþykkja frumvarpið nú gagnrýna helst að tíminn fram að sveitarstjórnarkosningum í vor sé allt of skammur og lítið svigrúm til undirbúnings. Gunnar Bragi Sveinsson þingflokksformaður Miðflokksins lagði fram breytingartillögu í þeim tilgangi um að fresta gildistöku frumvarpsins til 31. desember 2019.

„Ég vil ekki rasa um ráð fram,“ sagði Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í umræðunum. „Ég tel að það geti ekki farið saman að vera ólögráða og hafa þennan rétt. Þannig að ég tel miklu nær að við skoðum það að lækka lögræðisaldurinn,“ sagði hann.

„Ég hef ekki séð annað eins kapphlaup í nokkru máli eins og þessu,“ sagði Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins.

Umræðan stóð meira og minna í allan dag, fyrst og fremst með þátttöku þeirra sem eru á móti frumvarpinu.