Engar gælur - hann er að vinna!

Mynd: ?? / golden.is

Engar gælur - hann er að vinna!

17.04.2015 - 16:11

Höfundar

Hann má ekki láta neitt trufla sig, hvorki hljóð, hreyfingu eða augnsamband. Hann á alltaf að halda vinstri kanti, fara framhjá hindrunum, stoppa við kanta, stoppa við hindranir sem einstaklingurinn gæti rekist utaní eða jafnvel uppundir. Það eru miklar kröfur gerðar til leiðsöguhunda fyrir blinda.

Í landssöfnun Lions, Rauðu fjöðrinni, er að þessu sinni safnað fyrir kaupum á leiðsöguhundum fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda. En slíkir hundar eru dýrir því áður en þeir þeir eru tilbúnir  til starfa hafa þeir gengið í gegnum stranga þjálfun.

"Leiðsöguhundur þarf að kunna gríðarlega margt og þetta er rosalega flókin þjálfun sem hundurinn þarfa að ganga í gegnum" segir Drífa Gestsdóttir sem hefur þjálfað slíka hunda um margra ára skeið. Og já, hundarnir þurfa meira að segja að skynja hæð eigandans.
" Þegar maður og hundur vinna saman þá eru þeir ein heild þannig að hundurinn þarf að hugsa út fyrir sitt svið og skynja sig stærri."
Blindur eigandi stjórnar alltaf ferðinni, hundurinn þarf að læra bæði skipanir og bendingar og hann má kippa sér upp við einhver áreiti..

Það er ekki fyrir hvaða hund sem er að útskrifast úr slíkri þjálfun með full réttindi. "Það er rosalega erfitt að finna hunda til að sinna þessu verkefni af því við þurfum hunda sem eru stabílir og eru ekki hræddir við neitt, eru yfirvegaðir og afslappaðir en samt með vinnuvilja" segir Drífa. Hún segir gríðarlega sterkt samband myndast milli leiðsöguhundsins og eigandans.

Drífa segir nánar frá þjálfuninni í Samfélaginu.