Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Engar bætur þrátt fyrir að enda á Egilsstöðum

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett
Tvær flugvélar Wizz Air sem voru að koma frá Póllandi þurftu að lenda á Egilsstöðum vegna óveðursins. Þar var farþegum gefinn kostur að fara frá borði eða snúa aftur til Póllands. Farþegar eiga ekki rétt á bótum þótt flugfélagið hafi ekki skilað þeim á áfangastað.

Samtals um 500 manns voru um borð í vélunum sem voru að koma frá Kraká og Wroclaw. Áhafnir vélanna ákváðu að bíða ekki eftir að veðrinu slotaði í Keflavík heldur að snúa aftur til Póllands og fengu farþegar val um að fara aftur með vélunum til Póllands þar sem þeim yrði komið fyrir á hóteli eða að fara frá borði á Egilsstöðum.

Þeim sem fóru frá borði á Egilsstöðum var gert að skrifa undir yfirlýsingu þar sem þeir staðfesta flugfélagið sé ekki lengur skuldbundið til að koma þeim á endanlegan áfangastað, það er til Keflavíkur. Farþegarnir voru því á eigin vegum frá því þeir yfirgáfu flugvélina á Egilsstöðum. Farþegi sem fréttastofa ræddi við segir að stór hluti farþega hafi tekið þann kost að yfirgefa flugvélina.

Flugfélagið í rétti

Ómar R. Valdimarsson, lögmaður, hefur víðtæka reynslu af bótamálum í tengslum við flug og hann segir flugfélagið í rétti til að standa svona að málum.

„Þar sem það er ljóst að flugfélagið er að fljúga á ákveðinni leið, það er að segja frá Póllandi til Keflavíkur, neyðist síðan til að lenda á Egilsstöðum vegna vonds veður í Keflavík. Það sem þeir gera væntanlega í kjölfarið er að sitja áfram í vélinni og fljúga síðan aftur til Póllands þar sem þeir koma þeim fyrir á hótelum þar til hægt er að fljúga þeim til Keflavíkur. Þeir farþegar sem kjósa það að yfirgefa ferðina á þessum tímapunkti gera það þá á eigin ábyrgð.“

 Eiga þeir farþegar sem fóru úr á Egilsstöðum einhvern rétt á bótum?

„Nei, þeir eiga því miður ekki rétt á bótum þar sem að veður er eitt af því sem fellur undir óviðráðanlegar orsakir.“

Veðrið trompar allt

Það sama gildir um aðra farþega sem urðu fyrir töfum vegna veðurs, bæði þá sem snéru aftur til Póllands með Wizz Air og þá sem sátu í Keflavík. „Það er því miður þannig. Þeir sem að verða fyrir því að flugið þeirra raskast vegna veðurs þeir eiga rétt á því að flugfélagið skaffi þeim gistingu og ferðir til og frá flugvelli en bótaréttur, það er að segja 400, 600 eða 250 evrur, hann á ekki við um flug sem raskast af þessum orsökum,“ segir Ómar.