Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Engar áhyggjur“ af úrsögn Breta úr ESB

24.06.2016 - 12:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur engar áhyggjur af úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu þrátt fyrir mikil viðskipti Íslands og Bretlands með sjávarafurðir. Íslendingar ætli að setja sig strax í samband við Breta og óska eftir samtali um framhaldið.

Gunnar Bragi segir að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi í gær sé skýr. 

„Breska þjóðin hefur látið hræðsluáróður sem vind um eyru þjóta líkt og Íslendingar í Icesave hér um árið,“ segir Gunnar Bragi. „Ég held þeir þurfi ekkert að kvíða framtíðinni, þetta er eitt af sterkustu efnahagsveldum heims. Og fyrir okkur Íslendinga munum við bara reyna að eiga áfram gott samstarf við þá um sameiginleg málefni.“

Hann segir að mjög miklir hagsmunir séu í húfi, enda Bretar stærsta viðskiptaþjóð Íslendinga þegar kemur að sjávarafurðum. „Við munum að sjálfsögðu sjá hvernig fram vindur en setja okkur strax í samband við Breta og bjóða upp á og óska eftir samtali um það.“

Aðspurður hvort að hann hafi áhyggjur af framhaldinu segir Gunnar Bragi svo ekki vera. „Neinei. Ísland er utan Evrópusambandsins og besta þjóð í heimi í dag, best í fótbolta og allt. Engar áhyggjur. “