Endurvinnsla ekki lausnin á plastvandanum

21.01.2019 - 16:25
Mynd:  / 
Ekki er ráðlegt að líta á endurvinnslu sem lausn á þeim vanda sem mikil plastnotkun jarðarbúa er. Vandamálið er ekki of lítil endurvinnsla á plasti heldur allt of mikil notkun á því, segir Birgitta Stefánsdóttir hjá Umhverfisstofnun.

Kínverjar hafa löngum tekið við miklu af plastrusli heimsins en eru nú hættir því. Plastið sem hefur verið flokkað og til að mynda Sorpa tekur við fer því til svokallaða orkuendurvinnslu í Svíþjóð. Verð á endurunnu plasti hefur lækkað. Rætt var við Birgittu í útvarpsþættinum Samfélaginu á Rás 1 í dag. Þar sagði hún að markaðsaðstæður með endurunnið plast væru mjög erfiðar. „Við getum ekki horft á endurvinnslu sem lausnina á plastvandanum. Vandamálið er ekki að við séum ekki að endurvinna nóg af plasti. Það er að við erum að nota allt of mikið af því. Eftirspurn eftir endurunnum plastefnum er ekki nógu mikil. Ef þú ert að taka umbúðir og búa til nýtt plast úr því þá er það plast af minni gæðum og þú getur ekki notað það í hvað sem er,“ segir hún. 

Orkuendurvinnsla skárri en urðun

Fréttir fyrr í vetur, þess efnis að allt plast sem flokkað er og sett í Sorpu sé sent til Svíþjóðar þar sem það er brennt til orkuendurvinnslu, vöktu nokkra athygli. Birgitta segir að ef til vill komi það fólki spánskt fyrir sjónir að flytja plast til Svíþjóðar til að brenna það. Þó verði að hafa í huga að út frá umhverfissjónarmiðum sé sorpbrennsla með orkunýtingu skárri en urðun plastsins. Jákvæð áhrif af plastbrennslunni séu tvenns konar, annars vegar sé með þessu hægt að losna við neikvæð áhrif af urðun hér á landi og hins vegar að sé verið að búa til orku, það væri ekki gert ef plastið væri urðað. 

Skaðleg umræða um að hætta að flokka

Sú umræða að fólk ætli að hætta flokka plast þar sem það sé hvort sem er brennt í Svíþjóð er mjög hættuleg, að mati Birgittu. „Í mínum huga er það skýrt að þú ert að velja á milli þess að plastið þitt fari í urðun hér á landi og verði að engu eða fari í orkunýtingu í Svíþjóð. Þar verður það alla vega að einhverju og gerir eitthvað gagn fyrir samfélagið.“

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi