Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Endurupptökubeiðni Jóns Ásgeirs vísað frá

21.05.2019 - 09:55
Mynd með færslu
Jón Ásgeir Jóhannesson. Mynd: Kikkó - RÚV
Hæstiréttur féllst í morgun á kröfu saksóknara um að vísa frá endurupptökubeiðni Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar í einum anga af Baugs-málinu svokallaða. Dómurinn segir að í íslenskum lögum sé ekki að finna heimild til endurupptöku í kjölfar þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi komist að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn mannréttindasáttmála Evrópu.

Jón Ásgeir og Tryggvi voru á sínum tíma dæmdir í skilorðsbundið fangelsi og gert að greiða sekt fyrir meiriháttar brot á skattalögum. 

Þeir fóru með málið til Mannréttindadómstól Evrópu sem komst að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið á mannréttindum þeirra þar sem þeir hefðu verið dæmdir tvisvar á grundvelli sömu sönnunargagna.  Endurupptökunefnd féllst síðan á beiðni þeirra um endurupptöku málsins þar sem hún taldi að miklir gallar hefðu verið á meðferð málsins. 

Bæði Jón Ásgeir og Tryggvi kröfðust þess fyrir Hæstarétti að ákæruliðum gegn þeim yrði vísað frá en til vara að þeir yrðu sýknaðir. 

Í dómi Hæstaréttar er Baugsmálið rakið en það hófst með rannsókn skattrannsóknarstjóra í nóvember 2003 á skattskilum Jóns Ásgeirs og félaganna Baugs og Gaums.  

Athygli vekur að fyrir Hæstarétt var lagt fram bréf sýslumannsins á Norðurlandi vestra sem er dagsett 30. apríl.  Þar kemur fram að Jón Ásgeir hafi á árunum 2014 til 2017 greitt 39,3 milljónir af 62 milljóna sekt sinni en Tryggvi hafi greitt 8,9 milljónir af 32 milljóna sekt. Þá kemur fram í bréfi sýslumannsins að innheimtuaðgerðum hafi verið frestað þegar ljóst var að niðurstöðu væri að vænta frá mannréttindadómstólnum í Strassborg. 

Hæstiréttur segir að fyrir liggi að óhlutdrægur og óháður dómstóll hafi komist að niðurstöðu í máli Jóns Ásgeirs og Tryggva og sakfellt þá fyrir stórfelld brot gegn skattalögum.  Þá segir Hæstiréttur að þótt íslenskir dómstólar líti til dóma mannréttindadómstólsins og mannréttindasáttmálans þegar reyni á ákvæði hans þá sé það hlutverk Alþingis að gera þær breytingar á lögum sem þarf til að virða „þjóðréttarlegar skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt mannréttindasáttmálanum.“

Dómurinn telur því ekki heimild í lögum fyrir endurupptöku í kjölfar þess að Mannréttindadómstóllinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn mannréttindasáttmála Evrópu. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV