Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Endurspeglar ekki afstöðu flokksins

Mynd með færslu
 Mynd:
Sigrún Magnúsdóttir, formaður þingflokks Framsóknarflokksins segir að skoðanir oddvita Framsóknarflokks og flugvallarvina um byggingu mosku í Reykjavík endurspegli ekki afstöðu flokksins, og gangi reyndar þvert á stefnu hans.

Í samtali við fréttastofu í dag vísaði Sigrún í flokkssamþykktir sem varða jafnrétti og mannréttindi, sem og stjórnarskrá Íslands. Hún segir að flokksmenn megi vissulega hafa sínar skoðanir; einn þeirra, Hreiðar Eiríksson, sagði sig í gær frá fimmta sæti listans í Reykjavík vegna málsins. 

Á Facebook-síðu Jóhannesar Þórs Skúlasonar, aðstoðarmanns Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins, má sjá stöðuuppfærslu síðan í fyrra þar sem hann lýsir yfir stuðningi við byggingu mosku í borginni. Ráðherrar Framsóknar hafa ekki viljað tjá sig um málið í dag.