Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Endurskoða eftirlit með áburði

04.01.2012 - 21:25
Mynd með færslu
 Mynd:
Matvælastofnun ætlar að taka eftirlit með áburði til endurskoðunar. Forstöðumaður hjá stofnuninni segir nauðsynlegt að íhuga hvort segja eigi frá menguðum áburði strax og hann uppgötvast.

Alltof mikið af þungmálminum kadmíum fannst í ellefu tegundum af áburði sem Skeljungur seldi í fyrra. Matvælastofnun greindi mengunina í byrjun sumars en upplýsti ekki um málið fyrr en í skýrslu í desember. Þá var hins vegar búið að dreifa 11 þúsund tonnum af áburði með allt að þrefalt meira magni kadmíums en leyfilegt er. Matvælastofnun hefur verið gagnrýnd fyrir málsmeðferðina, en stofnunin sá hvorki ástæðu til að innkalla áburðinn, né láta bændur eða aðra kaupendur áburðar vita. Sigurður Örn Hansson, er forstöðumaður hjá Matvælastofnun, hann segir að það hafi verið mat stofnunarinnar að af þessu stafaði ekki bráðahætta og hann telur að menn myndu gera þetta með sama hætti aftur nú. 

„En við þurfum að taka til endurskoðunar hvort við eigum að segja frá svona frávikum strax,“ segir Sigurður. 

Kadmíum telst til óæskilegra þungmálma sem safnast fyrir í vefjum lífvera og í vistkerfum, og þar með í matvælum. Efnið er jafnvel talið krabbameinsvaldandi. Magn kadmíums í áburði má ekki fara yfir 50 milligrömm á hvert kíló fosfórs hér á landi. Hjá Skeljungi fór það í allt að 159 milligrömm á hvert kíló, sem er meira en þrefalt of mikið. Misjafnar reglur gilda hins vegar um kadmíuminnihald í áburði í öðrum Evrópulöndum. Í nágrannalöndum okkar væri áburðurinn gild vara, en auðvitað beri að framfylgja reglum hér.