Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Endurnýja ekki samning um málefni fatlaðra

Mynd með færslu
 Mynd:
Húnaþing vestra ætlar ekki að endurnýja samstarfssamning sem er í gildi til áramóta á milli sveitarfélaga á Norðurlandi vestra um málefni fatlaðra. Sveitarstjóri segir að sveitarfélagið ætli sjálft að veita þjónustuna með skilvirkari hætti en áður.

Allt frá árinu 1999 hafa sveitarfélög á Norðurlandi vestra unnið sameiginlega að málefnum fatlaðra í gegnum nokkra samstarfssamninga. Frá árinu 2016 hefur Skagafjörður verið leiðandi sveitarfélag í slíkum samningi. Sá samningur rennur út um næstu áramót. Sveitarfélögin þurfa að láta vita fyrir 1. nóvember hvort að þau ætli sér að endurnýja þann samning.

Langt og farsælt samstarf sveitarfélaganna

Byggðarráði Skagafjarðar barst erindi um miðjan ágúst frá Húnaþingi vestra um að sveitarfélagið myndi ekki endurnýja samninginn. Því eru forsendur endurnýjunar brostnar og sveitarfélögin ætla að annast málaflokkinn hvert um sig. Sigfús Ingi Sigfússon er sveitarstjóri Skagfirðinga. Hann segist harma það að samningurinn verði ekki endurnýjaður. Þá segist hann ekki vita hvers vegna Húnaþing vestra vilji ekki endurnýja samninginn. 

„Nei, það hefur ekki legið fyrir með skýrum hætti af hverju. Þetta samstarf á milli sveitarfélaganna á Norðurlandi vestra er búið að vera frá árinu 1999 svo það er búið að vera í 20 ár,“ segir Sigfús.

Notendur þjónustunnar verði ekki fyrir óþægindum

Hann segir að nú þurfi að bregðast við nýrri stöðu og endurhugsa hvernig hlutum verður háttað um málefni fatlaðra. Þó býst hann ekki við að breytingar verði á þjónustustigi við fatlaða innan sveitarfélagsins.

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir sveitarstjóri Húnaþings vestra segir þjónustu við notendur ekki breytast. Sveitarstjórn hafi viljað taka yfir málaflokkinn.

„Þau höfðu áhuga á að taka málefnið yfir og samþætta þjónustu við málefni fatlaðra í sveitarfélaginu og telja sig geta veitt betri þjónustu í nærsamfélaginu með því að hafa þetta allt inni í sveitarfélaginu
En var þjónustan ekki að uppfylla þær kröfur sem þið gerðuð?  Jú, þjónusta uppfyllti þær kröfur sem samningurinn gerði, en það eru ákveðnir þættir sem hafa fallið á milli skips og bryggu, og með því að taka þetta inn þá getum við samþætt alla þætti innan sveitarfélagsins.“ 

Ragnheiður segir að sumir þættir þjónustu við fatlaða hafi ekki fallið undir samkomulagið eins og liðveisla undir 15 tíma á viku, atvinna með stuðningi þar sem sveitarfélagið greiðir aðstoðarmanni, iðja fyrir 16-18 ára, ferðaþjónusta fatlaðra og  stuðningur í starfsnám á Hvammstanga.