Endurmenntun: uppistandssýning í jólagjöf frá RÚV núll

Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir

Endurmenntun: uppistandssýning í jólagjöf frá RÚV núll

26.12.2019 - 10:41
Uppistandssýningin Endurmenntun með grínhópnum VHS er jólagjöfin frá RÚV núll í ár. Sýningin er orðin aðgengileg í spilara RÚV og þar með í frelsinu í streymisveitum símafélaganna.

Uppistandshópurinn VHS fór hringinn í kringum landið síðla hausts með sýninguna Endurmenntun og sýndu fyrir fullu húsi í hvert sinn. RÚV núll mætti á síðustu sýningu hópsins á KEX hostel í lok nóvember til að fanga augnablikið fyrir áhorfendur. 

„Það er okkur mikil gleði að hjálpa fólki úr jólablúsinum með þessum hætti,” segir Stefán Ingvar Vigfússon, einn meðlima VHS. 

„Já ég tek undir með Stefáni. Samstarfið var einstaklega ánægjulegt og við á RÚV núll munum klárlega gera meira af því að færa áhorfendum upptökur af hinum ýmsu menningarviðburðum sem ungt fólk um allt land stendur fyrir,“ segir Snærós Sindradóttir, verkefnastjóri RÚV núll. 

Uppistandshópinn VHS skipa þeir Vilhelm Neto, Stefán Ingvar og Hákon Örn Helgason en Hákon er kynnir kvöldsins. Sýningin var tekin upp á KEX hosteli í Reykjavík þann 23. nóvember síðastliðinn. Sýningin verður aðgengileg í spilaranum í eitt ár frá útgáfudegi, eða til 20. desember 2020. Við mælum þó með áhorfi sem fyrst. 

Hér má horfa á uppistandið. Njótið vel. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Grenja í gestum að borga hraðasektina sína

Uppistand um árin sem hann var alltaf freðinn