Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Endurmat á myndlistararfinum alltaf í gangi

Mynd: Listasafn Íslands / Listasafn Íslands

Endurmat á myndlistararfinum alltaf í gangi

05.07.2017 - 14:23

Höfundar

Í Listasafni Íslands er nú uppi í tveimur sölum sýningin Fjársjóður þjóðar - valin verk úr safneign. Þar er að finna dágott úrval verka úr safneigninni, sem gefur yfirlit yfir þróun myndlistar á Íslandi frá öndverðri nítjándu öld til okkar daga. Harpa Þórsdóttir, sem nýlega tók við stöðu safnstjóra Listasafns Íslands, gekk nýlega með gestum um sýninguna og velti fyrir sér hugtakinu „lykilverk.“

Áhugavert að beita hugtakinu á safneignia 

Harpa Þórsdóttir segir mikilvægt að hugtakið „lykilverk“ sé ekki misskilið. „Í myndlistinni erum við vön því að tala mikið um meistaraverk,“ segir Harpa, „en þarna er ekki alveg það sama á ferðinni. Þegar talað er um meistaraverk er maður frekar að vísa beinlínis til ferils listamanns eða aftur fyrir okkur í sögu, til dæmis í tengslin við listasöguna. Hins vegar má velta fyrir sér lykilverkum inn í safneign og þá þarf maður oft að grúska betur, skoða og setja í samhengi. Maður þarf að spyrja sig: Eru í safneigninni verk sem vísa í eitthvað annað og meira en þau eru?“

Mynd með færslu
 Mynd: Listasafn Íslands / Jón Stefá - Listasafn Íslands

Næturkyrrðin myndgerð

Harpa tekur dæmi af málverki Jóns Stefánssonar Sumarnótt - Lómar við Þjórsá sem hann málaði árið 1929. Árum saman hékk verkið sjálft á Bessastöðum og kom því ekki fyrir sjónir margra á þeim tímum þegar færri komu í heimsókn til forsetans en nú er. Hins vegar gaf Ragnar Jónsson í Smára og Helgafellsútgáfan undir hans stjórn út endurprentun á verkinu sem hékk uppi í stofum víða um land og því varð verkið mörgum mjög hjartfólgið.

 „Ég er á því að þetta sé eitt helsta verk þjóðarinnar,“ segir Harpa. „Kannski er það ekki síst vegna þessarar miklu útbreiðslu sem rétt er að tala um þetta sem lykilverk í safneignni. Almennt má segja að líta megi svo á að lykilverk verði að hafa valdið einhverju,“ segir Harpa. Hún nefnir sem dæmi mannamyndir Kjarvals sem Menntamálaráð keypti á sínum tíma en þau kaup urðu til þess að Kjarval komst til Parísar þar sem hann áttaði sig á því að hann ætti fyrst og fremst að mála verk sín úti undir berum himni.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Samsett mynd
Harpa Þórsdóttir tók nýlega við starfi safnstjóra Listasafns Íslands.

Möguleikar til að eignast mikilvæg verk

Í samtímanum má stundum velta því fyrir sér hverjir séu möguleikar íslenskra safna á því að eignast lykilverk eða mikilvæg verk eftir íslenska listamenn. Harpa tekur myndaseríuna Cars in Rivers eftir Ólaf Elíasson sem dæmi en myndlistarmaðurinn gaf safninu verkið á sínum tíma. 

„Á bak við hverja mynd í seríunni er saga og aðstæður á bak við myndirnar eru auðvitað alvarlegar,“ segir Harpa en í verkinu eru ljósmyndir af ökutækjum sem sitja föst út í jökulám. „Það má horfa á þetta verk sem lykilverk sem tengist náttúruöflunum og nábýli manns og nátturu, en svo má velta því fyrir sér hvort þetta sé lykilverk listamannsins, lykilverk á ferli hans eða hvort það sé lykilverk inn í þeirri afmaörkuðu safneign sem safnið býr að.“

Stöðugt endurmat

„Rannsókn og endurmat okkar á listasögunni er verkefni sem alltaf heldur áfram. Það eru til dæmis fleiri fletir á listasögunni sem við könnum núna en áður fyrr. Því er mikilvægt að svona safneign sé alltaf í skoðun og eins okkar að setja hana alltaf í nýtt samhengi.“

Tengivagninn á Rás 1 kíkti í heimsókn til að ræða málið.