Endurkoma ABBA

Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia

Endurkoma ABBA

06.06.2016 - 12:44

Höfundar

Sá sögulegi atburður gerðist í gær að Abba-söngflokkurinn kom saman og tók lagið. Þetta er í fyrsta skiptið frá því 1982 sem fjórmenningarnir koma fram saman og syngja. Ástæða þessarar óvæntu endurkomu söngflokksins var sú að 50 ár eru liðin síðan þeir Björn Ulvaeus og Benny Andersson kynntust og fóru að semja tónlist.

Rjóminn úr sænska listalífinu heiðraði þá félaga og fjölmargir stigu á stokk. Meðal þeirra voru þær Agnetha Fältskog og Anni-Frid Lyngstad sem sungu fyrir félaga sína. Undir lokin á atriðinu stigu þeir Björn og Benny svo á sviðið og sungu með þeim. Það hefur ekki gerst síðan 11. desember 1982 þegar ABBA kom fram í skemmtiþættinum Late, Late Breakfast Show á BBC

Lagið sem þau fluttu var You and I úr söngleiknum Chess eftir þá félaga. Hvort þessir endurfundir verða til þess að hljómsveitin komi saman á ný skal ósagt látið en vinsældir söngflokksins hefur síður en svo dvínað frá því hún hætti. Plötusala hljómsveitarinnar nemur nú tæpum 400 milljónum og virðist ekkert lát vera þar á.