Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Endurheimt votlendis kostar milljarða

18.01.2018 - 16:55
Mynd: Guðráður Jóhannsson / Guðráður Jóhannsson
Ef ráðist verður í það að endurheimta votlendi til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda gæti kostnaðurinn hlaupið á milljörðum króna. Kostnaður við að endurheimta 900 ferkílómetra gæti numið 6 til 7 milljörðum. Í dag er meira ræst fram en það sem er endurheimt. Í næstu viku stendur til að stofna Votlendissjóð sem mun verða nýttur markvisst til að fylla þá skurði sem grafnir hafa verið í gegnum tíðina.

34 þúsund kílómetra skurðir

Síðustu ár hafa ýmsir litið hýru auga til endurheimtar votlendis í tengslum við loftlagsmál. Ekki að ástæðulausu því talið er að framræst votlendi standi undir 73% af losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Bændur voru duglegir að grafa skurði til að fá góð tún. Eftir seinni heimsstyrjöld tók gröfturinn kipp. Bændur fengu styrki til að ræsa landið fram og þess vegna var þetta góður kostur fyrir þá. Reiknað hefur verið út að samanlögð lengd skurðanna sé um 34 þúsund kílómetrar og þurrkaðir hafi verið 4200 ferkílómetrar af landi. 

Aðeins endurheimtir 7 ferkílómetrar

Það var fyrir um 20 árum sem var byrjað að tala um að endurheimta votlendi. Guðmundur Bjarnason, þáverandi landbúnaðarráðherra, setti á laggirnar votlendisnefnd sem starfaði í nokkur ár. Þá voru menn reyndar með hugann við að að endurheimta votlendi fyrir fugla. Seinna gerðu menn sér grein fyrir því að skurðirnir eru valdir að mikilli losun gróðurhúsalofttegunda. Lífræna efnið í sverðinum rotnar við þurrkun og leysir frá sér þessar lofttegundir. Votlendissetur var sett á laggirnar rétt fyrir bankahrunið og var í Landbúnaðarháskólanum. Fjárveitingar til setursins runnu smám saman út. Nú heyrir verkefnið undir Landgræðslu ríkisins. Af þeim 4200 ferkílómetrum sem hafa verið ræstir fram er talið að hægt sé að endurheimta um 900 ferkílómetra. Á síðastliðnum 20 árum hafa verið endurheimtir um 7 ferkílómetrar sem er ekki nema lítið brot af því sem hægt væri að ráðast í. Sunna Áskelsdóttir, verkefnisstjóri endurheimtarverkefnis Landgræðslunnar, segir að vissulega hefði verið betra að búið væri að endurheimta meira.

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Sunna Áskelsdóttir

„Það er samt ekki hægt að neita því að árangurinn af þeim verkefnum sem hefur verið farið í er mjög góður. Og það sést mjög vel að þetta er aðlaðandi aðgerð,“ segir Sunna.

2016 voru endurheimtir um 100 hektarar en í fyrra fór tíminn fyrst og fremst í að undirbúa næstu verkefni. Það er nefnilega ekki nóg að senda jarðýtu af stað til þess að fylla skurðina. Sunna segir nauðsynlegt að  skoða og vakta þau svæði sem stendur til að endurheimta. Auglýst var eftir verkefnum og þau samþykkt.

Milljarðar í votlendið

Það er greinilega verk að vinna ef endurheimta á að minnsta kosti 900 fermetra. En er til einhver framkvæmdaáætlun og vitað hvað þetta muni hugsanlega kosta?

„Nei, það er ekki til heildstæð áætlun um það. Þetta veltur töluvert á landeigendum. Þeir ráða yfir landinu og þetta verður að gerast í samvinnu við þá. Við hjá Landgræðslunni í samvinnu við aðra ætlum að prófa okkur áfram á þessu ári með því að taka út eitt sveitarfélag í einu. Skoða votlendissvæðin, meta stöðu þeirra og hvað er hægt að gera. Svo verður leitað til landeigenda og kannað hverjir eru tilbúnir,“ segir Sunna.

Það er hægt að leika sér með tölur um hugsanlegan kostnað. Vissulega eru mismunandi aðferðir við að endurheimta votlendi og þær eru misdýrar. Það hefur þó verið slegið á að kostnaður við að endurheimta einn hektara geti verið á bilinu 60 til 70 þúsund krónur. Það er hægt að endurheimta með nokkuð góðu móti 900 ferkílómetrar sem eru 90 þúsund hektarar. Þetta þýðir að heildarkostnaður getur verið á bilinu 5,4 til 6,3 milljarðar króna. Rétt er að taka fram að þessi kostnaður er einungis kostnaður verktaka sem tekur verkið að sér en ekki annar umsýslukostnaður. Spurningin er hvort það sé raunhæft að ráðast í þetta verk.

„Já, þrátt fyrir að kostnaðurinn skipti milljörðum í heild, sem er vegna þess að við eigum svo mikið af framræstu landi, sem ekki er verið að nota. Ef maður hugsar sér þetta í losun gróðurhúsalofttegunda og magni þeirra þá er þetta samt mjög, mjög ódýr loftslagsaðgerð,“ segir Sunna.

Stofnaður Votlendissjóður

Í næstu viku stendur til að stofna sjálfseignarfélag eða Votlendissjóð sem mun einbeita sér að því að endurheimta votlendi með því að safna framlögum frá fyrirtækjum og stofnunum. Sunna fagnar því að þessum sjóði verið komið á laggirnar. Eyþór Eðvarðsson er einn af hvatamönnum að stofnun sjóðsins. Hann segir að hugmyndin sé að tengja saman hina ýmsu aðila sem vilji láta gott af sér leiða og greiða í sjóðinn. Sjóðurinn muni starfa með þeim stofnunum sem tengjast þessu málefni. Stefnt sé að því að fyrsta verkefni verði að starfa með tilteknu sveitarfélagi fyrir austan og gera áætlun um hvað hægt er að gera þar til að endurheimta votlendi. Hann segir verkefnið mjög aðkallandi.

„Það er vitað að heildarlosun á Íslandi nemur 16,7 milljónum tonna. 73 prósent af þessari losun koma frá framræstu votlendi,“ segir Eyþór.

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson - Arnrnar Páll Hauksson
Eyþór Eðvarðsson

Meira ræst fram en endurheimt

Síðustu ár hefur framlag til votlendismála numið 20 milljónum króna sem eru smáaurar þegar tekið er tillit til þess sem þarf eða stefnt er að ráðast í.  Flestir eru sammála um að mikilvægt sé að hefjast handa strax í ljósi þess að talið er að 73% af allri losun hér komi frá framræstu landi eða skurðum. Þversögnin eða vandamálið sem er við að etja er sú staðreynd að síðustu ár hefur meira verið ræst fram en það sem er endurheimt.

„Já þó svo að það sé ekki haldin eins nákvæm skrá yfir framræsluaðgerðir eins og var þegar styrkir voru veittir þá held ég að það sé alveg öruggt að það er mun meira ræst fram af landi heldur en er endurheimt á Íslandi,“ segir Sunna Áskelsdóttir.