Endurgreiða 4 ár aftur í tímann

09.11.2013 - 13:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Lýsing endurgreiðir lántökum ofgreitt fé fjögur ár aftur í tímann frá því Hæstiréttur dæmdi að félaginu hafi verið óheimilt að innheimta verðbætur og breytilega vexti af bílasamning. Eldri kröfur eru fyrndar, segir í bréfi Lýsingar til lántakenda.

Hæstiréttur dæmdi í apríl að Lýsingu hefði verið óheimilt að innheimta verðbætur og breytilega vexti á bílasamningi sem var að hálfu gengistryggður og að hálfu í íslenskum krónum. Dómurinn snéri að þeim hluta samningsins sem var í krónum og taldi Hæstiréttur að í samningnum hafi ekki verið nægilega skýrt kveðið á um verðbætur og breytilega vexti. Í kjölfar dómsins sendi Lýsing lántakendum bréf þar sem þeir voru hvattir til að senda inn athugasemdir og gera kröfu um endurgreiðslu.

Í svarbréfi Lýsingar til lántaka kemur fram að félagið ætli að endurgreiða það sem var ofgreitt fjögur síðustu árin fyrir dóm Hæstaréttar, eða aftur til apríl 2009. Vísað er í lög um fyrningu kröfuréttinda en samkvæmt þeim fyrnast kröfur á fjórum árum. Hafi fólk ofgreitt af bílasamningum fyrir þann tíma eigi það ekki rétt á endurgreiðslu.

Þór Jónsson, talsmaður Lýsingar, segir að félagið þurfi skoða hvert og eitt lán sérstaklega þar sem aðstæður séu ólíkar. Hann vísar í svar Fjármálaeftirlitsins frá í sumar við opnu bréfi um starfshætti Lýsingar. Þar kemur fram að almennt geti fyrning kröfu og tómlæti leitt til þess að menn glati kröfu sem þeir sem telja sig eiga. Skýrar reglur gildi um fyrningu krafna. Upplýsingafulltrúi Fjármálaeftirlitsins sagðist ekki tjáð sig um einstök mál, þegar eftir því var leitað.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi