Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Emírnum af Katar boðið til Sádi Arabíu

27.05.2019 - 06:27
Qatar's Emir Sheikh Tamim bin Hamad Al Thani attends the oppening of the 30th Arab Summit in Tunis, Tunisia, Sunday, March 31, 2019. Leaders meeting in Tunisia for the annual Arab League summit on Sunday were united in their condemnation of Trump administration policies seen as unfairly biased toward Israel but divided on a host of other issues, including whether to readmit founding member Syria. (Fethi Belaid/ Pool photo via AP)
 Mynd: ASSOCIATED PRESS - AFP
Sheikh Tamim bin Hamad Al Thani, emírinn af Katar, fékk boð frá Salman konungi Sáda um sæti á aukafundi samvinnunefndar Flóaríkja, GCC, 30. maí. Al Jazeera hefur þetta eftir yfirlýsingu frá utanríkisráðuneytinu í Katar. Utanríkisráðherann Sheikh Mohammed bin Abdulrahman Al Thani tók við boðinu af formanni GCC, Abdullatif bin Rashid Al Zayani, í Doha í gær. 

Ríkin hafa eldað grátt silfur saman síðan sumarið 2017. Þá sleit Sádi Arabía, auk Egyptalands, Barein og Sameinuðu arabísku furstadæmanna, stjórnmála- og viðskiptasamskiptum við Katar. Auk þess var sett farbann á ríkið, á vegum, lofti og láði. Ríkin saka Katar um að styðja við hryðjuverkahópa og geri stjórnarandstöðuflokka útlæga. Katar hefur alltaf neitað þessum ásökunum.

Nú virðist Salman konungur reiðubúinn að leita sátta. Hann bauðst til þess fyrr í mánuðinum að Sádar myndu bjóða til tveggja ráðstefna í Mekka í lok mánaðarins til að ræða undanfarnar ófriðaröldur á svæðinu og afleiðingar þeirra. Boð konungsins kom eftir árásir með drónum á olíuvinnslustöðvar í Sádi Arabíu og árás á fjögur skip undan strönd Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Tvö skipanna voru Sádiarabísk olíuflutningaskip.

Stjórnvöld í Riyadh sökuðu Írani um að standa á bakvið drónaárásirnar, sem Hútar í Jemen segjast hafa borið ábyrgð á. Íranir neita að hafa nokkuð með árásirnar að gera, og var haft eftir hátt settum írönskum hershöfðingja að Íranir væru ekki í leit að stríðsátökum. Spennan hefur magnast á Persaflóa undanfarið, ekki síst fyrir tilstilli aukins umfangs Bandaríkjahers á svæðinu.