Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Embætti Páls lagt niður 2 vikum eftir dóm

10.09.2018 - 12:10
Úr umfjöllun Kveiks um biskup Íslands, Agnesi M. Sigurðardóttur.
Agnes M. Sigurðardóttir biskup. Mynd: Kveikur - RÚV
Sr. Páll Ágúst Ólafsson, héraðsprestur í Vesturlandsprófastsdæmi, fékk, samkvæmt heimildum fréttastofu, bréf frá biskupi Íslands hálfum mánuði eftir að Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að biskup hefði ekki farið að lögum við skipan Páls í embættið. Í bréfinu tilkynnti biskup að embætti Páls hefði verið lagt niður en að hann ætti inni laungagreiðslur næstu sex mánuði.

Páll hefur stefnt bæði biskupi og Þjóðkirkjunni vegna þessarar ákvörðunar og krefst þess að hún verði ógild með dómi.  Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun en það fékk flýtimeðferð fyrir dómnum, samkvæmt upplýsingum fréttastofu. 

Páll var skipaður sóknarprestur á Staðarstað fyrir fimm árum. Hann lenti í deilum við biskup, meðal annars vegna prestbústaðarins á Staðarstað, sem Páll taldi óíbúðarhæfan vegna myglu.  Hann og fjölskylda hans fluttu af prestssetrinu og í framhaldinu leysti biskup hann undan búsetuskyldu, ákvörðun sem mæltist illa fyrir meðal heimamanna. 

Í september á síðasta ári reyndi biskup síðan á höggva á hnútinn í deilunni með því að gera Pál að héraðspresti í Vesturlandsprófastsdæmi. Páll var ósáttur við skipunartímann og taldi að skipunin ætti að gilda til 2022 en ekki 2018.  Málið fór að lokum fyrir dómstóla þar sem Páll hafði betur.   Biskup hefði ekki farið að lögum þegar hann skipaði Pál sem héraðsprest í Vesturlandsprófastsdæmi og ætti  því að gefa út nýtt erindisbréf með gildistíma til 30. júní 2022.  Biskup ákvað að áfrýja málinu til Landsréttar.

Samkvæmt heimildum fréttastofu var Páli síðan tilkynnt bréfleiðis tveimur vikum eftir dóminn að embætti héraðsprests í Vesturlandsprófastsdæmi hefði verið lagt niður en hann ætti rétt á launagreiðslum næstu sex mánuði.  Páll krefst þess nú fyrir dómi að sú ákvörðun biskups verði dæmd ógild en til vara að hann eigi rétt á skaðabótum vegna ákvörðunarinnar.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV