Elsta þekkta efni á Jörðinni angar sem úldið hnetusmjör

14.01.2020 - 05:56
Mynd með færslu
 Mynd: United States Department of Ener - Wikipedia
Teymi vísindamanna frá Bandaríkjunum og Sviss uppgötvaði nýverið elsta efni sem fundist hefur á Jörðinni. Það er um 7,5 milljarða ára gamalt og lyktar eins og úldið hnetusmjör.

Efnið leyndist í broti úr loftsteini sem kallast Murchison-loftsteinninn og féll til jarðar í Ástralíu árið 1969. Í loftsteinsbrotinu fann rannsóknarteymið nokkur rykkorn sem reyndust um 7,5 milljarða ára gömul. Það þýðir að þau hafa orðið til í stjörnu eða stjörnum sem eru um þremur milljörðum ára eldri en sólkerfið okkar og hafa því ferðast langan veg um langa hríð áður en þau enduðu nærri smábænum Murchison í Viktoríuríki Ástralíu.

Alvöru stjörnuduft

Greint er frá niðurstöðunum í vísindatímaritinu Proceedings of the National Academy of Sciences, eða Tímariti bandarísku vísindaakademíunnar. Þar segir frá því, að þegar stjörnur deyja, þá þeytast frá þeim agnir af ógnarkrafti, langt út í geim. Þessar agnir renna síðan saman við nýjar stjörnur, plánetur, tungl og loftsteina. „Þetta eru áþreifanleg sýnishorn af stjörnum, alvöru stjörnuryk,“ segir Philipp Heck, aðstoðarprófessor við háskólann í Chicago, sem var í hópi vísindamannanna sem rýndu í ein 40 rykkorn úr Murchison-loftsteininum.

Úldið hnetusmjör

Samstarfskona hans í Chicago-háskóla, Jennika Greer, segir að þau hafi byrjað á því að mölva loftsteinsbrotið mélinu smærra. Úr þessu verður eins  konar mauk, segir hún, „sem lyktar eins og úldið hnetusmjör“. Þetta illa lyktandi mauk er svo leyst upp í sýru, og eftir situr stjörnurykið ómengað. „Þetta er eins og að brenna heysátuna í leit að nálinni,“ segir Heck.

Geimgeislun afhjúpar aldurinn

Til að finna aldur stjörnuryksins mældu rannsakendur hversu lengi agnirnar hafa verið útsettar fyrir geimgeislum. Flestar agnirnar eru 4,6-4,9 milljarða ára gamlar. Til samanburðar má geta þess að sólin okkar er um það bil 4,6 milljarða ára og Jörðin um 4,5 milljarða ára gömul. Elstu agnirnar reyndust aftur á móti 7,5 milljarða ára.

Og rannsakendur eru þess fullvissir að enn eldri agnir leynist í Murchison-loftsteininum og öðrum loftsteinum sem ratað hafa til Jarðar í gegnum tíðina. „Við eigum bara eftir að finna þær,“ segir Heck. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV