Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Elrið byrjað að blómstra og frjókorn að fljúga

Mynd með færslu
 Mynd: Salvör Gissurardóttir - Wikipedia
Frjókorn elrisins eru byrjuð að mælast í lofti. Fólk sem er með ofnæmi fyrir birki gæti fundið fyrir vægum einkennum.

Trjátegundin elri, sem kallast einnig ölur, byrjaði að blómgast um síðustu mánaðamót og dreifa frjóum sínum. Fram kemur á vef Náttúrufræðistofnunar að fólk með birkiofnæmi geti fundið fyrir ofnæmiseinkennum af elri þar sem tegundirnar eru sömu ættar og hafa sömu ofnæmisvaka. Helstu tegundir sem valda ofnæmi á Íslandi eru birki, grös og súrur. 

Elri er fyrsta plöntutegundin sem getur valdið ofnæmi til þess að blómstra á vorin og vaknar af dvala þegar hitinn er kominn yfir fimm gráður. Birki blómgast venjulega hér í maí, en fyrr annars staðar á Norðurlöndum, og eru dæmi um að frjókorn þaðan, að því talið er, hafi mælst hér á landi, segir Náttúrufræðistofnun. Birki er einn skæðasti ofnæmisvaldur á Norðurlöndunum en grasofnæmi er algengara á Íslandi. 
Lyng- og víðifrjó eru líka með þeim fyrstu sem mælast í frjógildrum Náttúrufræðistofnunar, sem eru í Garðabæ og á Akureyri. Báðar tegundir valda ofnæmi, en eru ekki eins skæðar og birki eða elri. Asparfrjóin koma svo í maí.