Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ellismellir skella í sumarsmelli

09.04.2015 - 10:18
Mynd: Sönghópur  / Tónar og trix
Tónar og Trix er tónlistarhópur eldri borgara í Þorlákshöfn sem hittist vikulega yfir vetrartímann til þess að spila og syngja saman. Í hópnum er fólk á aldrinum 65 – 90 ára. Þau hafa undanfarna mánuði unnið hörðum höndum að því að æfa og taka upp plötu sem fyrirhugað er að komi út í maí.

Lokaverkefni sem vatt upp á sig
Þetta litla ævintýri hefur aldeilis undið upp á sig, segir Ása Berglind Hjálmarsdóttir stjórnandi, en verkefnið byrjaði sem lokaverkefni hennar í Listaháskólanum árið 2007. „Þetta var bara svo skemmtilegt og gefandi fyrir alla að þau báðu mig um að halda þessu áfram“

„Við syngjum og svo höfum við líka unnið með hljóðfæri og samið tónlist. Útgangspunkturinn er líka að fara aðeins út fyrir rammann sinn. Þau eru alltaf að koma sjálfum sér, og mér og öllum öðrum, á óvart.“

Nauðsynlegt fyrir sálina
Ásberg Lárentzinusson, einn meðlima hópsins, segir þetta vera nauðsynlegt fyrir sálina að koma saman og syngja og tralla. „Það er lífsnauðsynlegt að láta sönginn hljóma. Maður kemur kannski úrillur og þreyttur á æfingar en þegar maður labbar út er maður orðinn allt annar maður.“

Plata í bígerð
Í byrjun árs 2015 var ákveðið að næsta skref í þessari músíkölsku ævintýraför Tóna og Trix væri að taka upp og gefa út plötu. Í gegnum þau átta ár sem hópurinn hefur starfað saman hafa orðið til frumsamin lög, bæði í sjálfum hópnum og á meðal einstakra meðlima innan hans.

Stefnt er að því að gefa plötuna út í næsta mánuði en safnað er fyrir útgáfunni í gegnum hópfjármögnunarvefinn Karolinafund.

Ása Berglind og Ásberg voru gestir Morgunútgáfunnar í dag.

hrafnhih's picture
Hrafnhildur Halldórsdóttir
dagskrárgerðarmaður