Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Elliði: „Áttum von á því að fá ráðherra“

11.01.2017 - 11:17
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, segist skilja vel hvað Páll eigi við með færslu sinni á Facebook. Páll greiddi ekki atkvæði með tillögu formanns Sjálfstæðisflokksins um ráðherraskipan og sagði hana vera lítilsvirðingu gagnvart Suðurkjördæmi þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefði unnið sinn stærsta sigur í kosningunum.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er verulega óánægja meðal Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi með ráðherraleysið. Og það sést reyndar vel á Facebook-síðum Páls og Ásmundar Friðrikssonar, sem skipaði annað sætið á lista flokksins. Þar hafa kjósendur óspart látið skoðun sína í ljós. 

Sjálfstæðisflokkurinn fékk 31,5 prósent atkvæða í Suðurkjördæmi í kosningunum í október og fjóra menn kjörna. Töluverð átök voru um framboðslista flokksins eftir að Páll  bauð sig fram gegn Ragnheiði Elínu Árnadóttur, þáverandi ráðherra, í oddvitasætið.

Páll vann yfirburðarsigur í prófkjörinu - hlaut 1.771 atkvæði í 1. sæti en Ragnheiður Elín 1.021 og hafnaði í fjórða sæti. Ragnheiður ákvað í framhaldinu að taka ekki sæti á listanum en Unnur Brá Konráðsdóttir tók sæti hennar og hún verður forseti Alþingis. Sem er ígildi ráðherraembættis.

Páll vildi ekki veita fréttastofu viðtal fyrir hádegi en segir í samtali við mbl.is að hann hafi reiknað með ráðherrastól - þetta snúist ekki um sig sem persónu heldur Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi.   

Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Eyjum, segist skilja vel hvað Páll eigi við miðað við þann stuðning sem flokkurinn fékk í kjördæminu. „Það hefði verið fullkomlega eðlilegt ef Páll hefði orðið ráðherra.“ Suðurkjördæmi er eitt helsta ferðamannasvæði landsins og Elliði viðurkennir að sunnlendingar hafi átt von á því að það kæmi ráðherra úr kjördæminu.

Honum líst að öðru leyti ágætlega á nýja ríkisstjórn. „En þetta var ekki mín óskastjórn - við skulum gefa henni séns. Þarna er margt öflugt fólk sem ég þekki - bæði í Sjálfstæðisflokknum en líka úr hinum flokkunum.“ 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV