„Elliðaárnar fái að njóta vafans“

04.12.2019 - 22:53
Mynd með færslu
 Mynd: Milla Ósk Magnúsdóttir - RÚV
Einungis verður heimilt að veiða á flugu í Elliðaánum á næsta ári og verður veiðimönnum skylt að sleppa öllum laxi sem veiddur er. Jón Þór Ólason, formaður Stangveiðifélags Reykjavíkur, segir ákvörðunina hafa verið óumflýjanlega vegna ástands laxastofnsins.

Stjórn stangveiðifélags Reykjavíkur tók þessa ákvörðun eftir að niðurstöður rannsóknar á laxastofni Elliðaánna voru kynntar fyrir stjórn félagsins. Jón Þór segir mörg atriði hafa leitt til þess að laxastofn Elliðaánna sé nú í hættu.

„Það kom upp kílaveiki í ánum á tíunda áratugnum sem skildi eftir sig stór skörð í stofninum. Síðan eru þetta atriði sem eru mannanna verk. Byggðin er búin að færast nær ánum, það er mikil umferð, ljósmengun og annars konar vatnsmengun, rennslið og ástandið í hafinu. Einn af þeim þáttum sem hefur líka að sjálfsögðu áhrif er veiðinýtingin,“ segir Jón.

Hann segir það stóra ákvörðun að breyta hátt í aldargamalli veiðihefð. „Þetta er í fyrsta skipti síðan það var byrjað að veiða í Elliðaánum sem dráp á laxi er bannað. Þetta var nauðsynlegt skref og tímanna tákn. Laxastofninn víða á undir högg að sækja og þá er það okkar að sýna ábyrgð og bregðast við með þeim hætti að Elliðárnar fái að njóta vafans.“

Ákvörðunin hefur vakið mikil viðbrögð meðal laxveiðimanna en stjórn félagsins segist treysta því að félagsmenn sýni henni skilning. „Það eru flestir sem sýnt hafa mjög jákvæð viðbrögð. Auðvitað eru margir ósáttir. Þetta er stór ákvörðun og þar af leiðandi ekki létt að taka en tölurnar ljúga ekki. Þar af leiðandi var þessi ákvörðun óumflýjanleg,“ segir Jón.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi