
Ellefu sveitarfélög skoða sameiningar
Ellefu sveitarfélög á þremur stöðum á landinu eru að skoða sameiningar. Ferlið er mislangt komið. Ein er í undirbúningi og tvær í formlegu samráðsferli. Íbúar hafa lokaorðið og samráðsferlunum lýkur með íbúakosningu.
1800 manna sveitarfélag í Austur-Húnavatnssýslu
Fjögur sveitarfélög í Austur-Húnavatnssýslu, Skagabyggð, Skagaströnd, Blönduósbær og Húnavatnshreppur stefna að því að verða eitt 1800 manna sveitarfélag. Samþykkt var að fara í formlegar viðræður seinni part árs 2017.
Jón Gíslason formaður samninganefndar segir hlé hafa verið gert á viðræðunum í vor og ákveðið að bíða og sjá hvað yrði úr væntanlegri lagasetningu. Viðræður séu því að fara af stað aftur núna. Alltaf hafi verið horft til þess að viðræðum lyki með kosningum og sameining tæki gildi við næstu sveitastjórnarkosningar árið 2022.

Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppur
Þá samþykktu Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppur að kanna ávinning af sameiningu í júní á síðasta ári. Samstarfsnefnd sveitarfélaganna undirbýr tillögu að útfærslu og stefnt að því að hún skili áliti sínu til sveitarstjórna fyrir lok árs. Þá er gert ráð fyrir að íbúar greiði atkvæði í mars á næsta ári.
Skútustaðahreppur og Þingeyjarsveit hafa unnið mikið saman undanfarin ár. Formlegt samstarf er um skipulags- og byggingamál og brunavarnamál auk ýmissa annarra samstarfsverkefna. Í Skútustaðahreppi búa um 500 manns og í Þingeyjarsveit rúmlega 900. Sameinað sveitarfélag yrði rétt rúmlega 12 þúsund ferkílómetrar.

Sameining á Suðurlandi
Þá hafa fimm sveitarfélög í Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu ákveðið að skoða kosti þess að sameinast. Þetta eru Ásahreppur, Rangárþing ytra, Rangárþing eystra, Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur. Anton Kári Halldórsson, formaður verkefnahóps á vegum sveitarfélaganna segir ferlið í raun nýfarið af stað. Í lok síðasta árs hafi þrír fulltrúar úr hverju sveitarfélagi verið skipaðir í verkefnahóp sem eigi að kanna kosti og galla sameiningar.
Hópurinn muni hafa hraðar hendur því niðurstöður eigi að liggja fyrir fyrir sumarfrí. Sveitarfélögin eigi því að geta ákveðið í síðasta lagi í haust hvort þau hafi áhuga á að hefja formlegt samráðsferli. Íbúafjöldi sameinaðs sveitarfélags yrði hátt í 5.300. Anton segir hópinn hafa fundað þrisvar sinnum, á síðasta fundi hafi verið valinn ráðgjafi og á næsta fundi hefjist formleg vinna við greiningu.
