
Ellefu látist í slysum á Suðurlandi á árinu
Kona sem var flutt slösuð á sjúkrahús í Reykjavík í gær eftir að hafa lent í slysi við Reynisfjöru er látin. Konan hlaut höfuðáverka þegar hún féll á göngustíg sem liggur frá bílastæðinu við Reynisfjöru niður í fjöruna. Konan var erlendur ferðamaður, fædd árið 1938, og var á ferð um Ísland með fjölskyldu sinni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurlandi.
Þetta er ellefta andlátið í níu slysum í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi það sem af er þessu ári.
11. janúar lést ungur íslenskur maður í bílslysi á þjóðvegi 1, skammt vestan við Skeiðavegamót.
17. janúar fannst franskur ferðamaður látinn í brattlendi við Sandfell í Öræfum.
28. febrúar lést íslenskur maður í slysi í helli í Blágnípujökli í Hofsjökli.
8. mars létust tveir erlendir ferðamenn í árekstri vörubíls og fólksbíls á Lyngdalsheiði.
23. mars varð alvarlegt slys þegar íslensk kona féll innandyra á Höfn í Hornafirði. Hún lést þremur dögum síðar.
5. apríl lést erlendur ferðamaður í bílveltu austan við Vík í Mýrdal.
20. maí drukknuðu erlend hjón þegar þau voru við veiðar í Þingvallavatni.
Og í gær lést svo konan í slysinu við Reynisfjöru.
Af þeim ellefu sem hafa látist í slysum í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi á árinu eru sjö erlendir ferðamenn.
Auk þessara slysa hefur lögreglan á Suðurlandi þurft að sinna fjölmörgum erfiðum útköllum það sem af er ári. Þannig hefur í tvígang verið leitað að mönnum sem hafa farið í Ölfusá, en hvorugur þeirra hefur fundist. Þá rannsakar lögreglan manndráp á bæ í Biskupstungum í byrjun apríl.