Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ellefu framboð þar sem þau eru flest

Mynd með færslu
 Mynd: AP Images - RÚV
Framboðsfrestur fyrir Alþingiskosningarnar 28. október rann út núna klukkan tólf á hádegi. Níu flokkar bjóða fram í öllum kjördæmum og þrír í nokkrum þeirra.

Fulltrúar flokka og framboða streymdu á fund yfirkjörstjórna vítt og breitt um landið í morgun áður en framboðsfrestur rann út klukkan tólf á hádegi. Þar skiluðu þeir inn framboðlistum og undirskriftum meðmælenda um framboð þeirra.

Níu flokkar bjóða fram í öllum kjördæmum. Það eru Björt framtið, Framsóknarflokkurinn, Viðreisn, Sjálfstæðisflokkurinn, Flokkur fólksins, Miðflokkurinn, Píratar, Samfylkingin og Vinstrihreyfingin - grænt framboð. Alþýðufylkingin býður fram í fjórum kjördæmum; Reykjavíkurkjördæmunum tveimur, Suðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi.

Íslenska þjóðfylkingin býður fram í þremur kjördæmum, Reykjavíkurkjördæmunum tveimur og Suðvesturkjördæmi. Dögun býður fram í Suðurkjördæmi. 

Að óbreyttu geta kjósendur mest valið milli ellefu framboðslista; á höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi, en minnst níu framboða; í Norðvesturkjördæmi. 

Nú kemur að yfirferð kjörstjórna um hvort öll framboðin séu gild. Það skýrist á morgun. Yfirkjörstjórn í Reykjavík suður veitti Íslensku þjóðfylkingunni frest til klukkan sex í dag, til að skila einni undirskrift frambjóðanda sem vantaði.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV