Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Ellefu ára stúlka bjargar smábarni

24.02.2012 - 12:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Ellefu ára stúlka í Reykjanesbæ bjargaði ársgömlu barni frá drukknun í Sundmiðstöðinni í Reykjanesbæ í gær. Stúlkan var á sundæfingu þegar hún sá barnið í lauginni.

Ársgamalt barn var hætt komið í Sundmiðstöðinni í Reykjanesbæ í gær. Það vildi barninu til happs að ellefu ára stúlka, Aníka Mjöll Júlíusdóttir, varð barnsins vör og kom því til bjargar.

„Hún er á sundæfingu og tekur eftir því að það er eitthvað fyrir framan hana og heldur fyrst að þetta sé dúkka. Þegar hún kemur nær sér hún að þetta er ungabarn, hún syndir beint að barninu, tekur það upp, færir á sundlaugarbakkann og slær á bak þess. Síðan koma þarna yfirþjálfarinn og starfsfólk sundlaugarinnar," segir Þórunn Ósk Haraldsdóttir, móðir Aníku Mjallar.

Barnið var fljótt að jafna sig og þurfti ekki að kalla eftir aðstoð sjúkraliðs. Það var í sundferð með föður sínum og systkinum en hafði ráfað út úr klefanum og dottið í laugina. Ragnar Örn Pétursson, forstöðumaður sundmiðstöðvarinnar, segir mikla mildi að ekki fór verr. Strax eftir óhappið í gær var haldinn fundur með starfsfólki sundlaugarinnar þar sem farið var yfir verklagsreglur.