Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Elísabet og Jónas fá menningarviðurkenningar

Mynd með færslu
 Mynd:

Elísabet og Jónas fá menningarviðurkenningar

04.01.2019 - 16:54

Höfundar

Menningarviðurkenningar RÚV voru veittar við hátíðlega athöfn í Útvarpshúsinu í dag. Elísabet Kristín Jökulsdóttir hlaut viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins og Jónas Sig hlaut Krókinn fyrir framúrskarandi lifandi flutning. Einnig voru orð og nýyrði ársins 2018 tilkynnt og styrkir úr Tónskáldasjóði veittir.

Menningarviðurkenningar RÚV fyrir árið 2018 voru veittar við hátíðlega athöfn í Stúdói A í Útvarpshúsinu við Efstaleiti í dag. Eliza Reid forsetafrú, Lilja Dögg Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og fleiri góðir gestir voru við athöfnina sem útvarpað var í beinni á Rás 1, sýnd á RÚV 2 og streymt á rúv.is. Veitt var viðurkenning úr Rithöfundasjóði og styrkir úr Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins og STEFs. Auk þess veitti Rás 2 Krókinn, verðlaun fyrir framúrskarandi lifandi flutning árið 2017 og tilkynnt var um valið á orði ársins og nýyrði ársins 2018. Sigurlaug M. Jónasdóttir var kynnir á athöfninni, Vandræðaskáldin Sesselía Ólafsdóttir og Vilhjálmur Bergmann Bragason tilkynntu um val á orði ársins að norðan og Kári Egilsson flutti tónlistaratriði.

Mynd:  / 
Elísabet Jökulsdóttir.

Elísabet Kristín Jökulsdóttir hlaut viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins fyrir ritstörf. Í rökstuðningi úthlutunarnefndar segir meðal annars: „Eitt mikilvægasta framlag hennar til íslenskra bókmennta eru skrif hennar um kvenlíkamann, kynvitundina og skömmina. Hún hefur fært í orð þá hluti sem legið hafa í þagnargildi langt fram á okkar daga, og gerði það áður en samfélagið var tilbúið að hlusta. Það er fyrst með nýrri kynslóð kvenna og í kjölfar samfélagsmiðlahreyfinga síðustu ára sem samfélagið hefur öðlast getu að meta þetta framlag til fulls.“ 

Mynd:  / 
Jónas Sig.

Jónas Sig hlaut Krókinn 2018 – viðurkenningu Rásar 2, fyrir framúrskarandi tónlistarflutning á árinu.

Orð ársins

Kosið var um orð ársins 2018 á menningarvef RÚV. Þátttakendur völdu þar kulnun orð ársins og orðið klausturfokk nýyrði ársins 2018. Orðið kulnun er notað um viðvarandi andlega og líkamlega þreytu og doða, einkum í tengslum við vinnu og hefur verið áberandi á árinu. Nýyrðið klausturfokk er haft um röð atburða sem einkennist af mistökum sökum vanhæfni, ranghugmynda eða heimsku. Orðið er byggt á enska orðinu clusterfuck, sem er sömu merkingar, og er beinlínis hljóðlíking þess. Nýyrði ársins spratt fram eftir að klausturupptökurnar voru kunngjörðar.

Stofnun Árna Magnússonar útnefnir sögnina plokka orð ársins 2018. Valið byggði stofnunin á upplýsingum í textasöfnum sínum. Þeir sem plokka tína upp rusl meðan skokkað er eða gengið. Þannig sameinar fólk áhuga á umhverfisvernd og heilsusamlegu líferni. Siðurinn á rætur að rekja til Svíþjóðar, og kallast á sænsku plogga. Orðið er myndað af  plokka (tína upp) og jogga (skokka). Plokk komst í hámæli á fyrri hluta ársins og var mikið iðkað í sumar. Plokka er gamalt orð sem notað hefur verið í ýmsu samhengi. Oftast hefur það merkinguna að reyta, til dæmis fiður, augabrúnir eða jafnvel peninga af öðrum. Það getur merkt að hreinsa eitthvað úr einhverju og áhugamenn um tónlist þekkja strengjaplokk. Ný merking orðsins fellur vel að eldri merkingu og rímar þar að auki við skokk, sem margir plokkarar stunda.

72 styrkir veittir úr Tónskáldasjóði

Alls voru 72 styrkir veittir úr sameinuðum Tónskáldsjóði Ríkisútvarpsins og STEFs árið 2018, en sjóðurinn hefur það markmið að stuðla að frumsköpun og útbreiðslu íslenskrar tónlistar. Sjóðurinn veitir fjárstuðning til höfunda fyrir tónsmíði og heildstæð verk og er sérstaklega horft til fagþekkingar auk þess sem metnaðarfyllri og yfirgripsmeiri verkefni hljóta forgang. Einnig er tilgangur sjóðsins að veita fjárstuðning við nýsköpun verka til flutnings í miðlum RÚV. 

Styrkina á síðasta ári hlutu Anna Þorvaldsdóttir, Auðunn Lúthersson, Áskell Másson, Bára Gísladóttir, Bergrún Snæbjörnsdóttir, Bryndís Jakobsdóttir, Daníel Helgason, Davíð Brynjar Franzson, Davíð Þór Jónsson, Egill Ólafsson, Elín Gunnlaugsdóttir, Erik DeLuca, Finnur Karlsson, Finnur Torfi Stefánsson, Guðmundur Pétursson, Gunnar Andreas Kristinsson, Hafdís Bjarnadóttir, Haraldur V. Sveinbjörnsson, Haukur Freyr Gröndal, Haukur Þór Harðarson, Haukur Tómasson, Hera Hjartardóttir, Hilmar Örn Hilmarsson, hljómsveitin Nýdönsk, hljómsveitin Valdimar, Hlynur Aðils Vilmarsson, Hreiðar Ingi Þorsteinsson, Hugi Guðmundsson, Indriði Arnar Ingólfsson, Ingi Bjarni Skúlason, Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir, Jesper Pedersen, Jóhann G. Jóhannsson, Jónas Sigurðsson, Jónas Tómasson, Karólína Eiríksdóttir, Kári Einarsson, Kolbeinn Bjarnason, Kristinn Roach, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Kristófer Rodrigez, Lára Rúnarsdóttir, Lára Sóley Jóhannsdóttir, Leifur Gunnarsson, Leifur Þórarinsson, Listahátíð Reykjavíkur, Marketa Irglova, Mezzoforte, Oliver Kentish, Ómar Guðjónsson, Páll Ragnar Pálsson, Ragnheiður Erla Björnsdóttir, Sigmar Þór Matthíasson, Sigrún Jónsdóttir, Sigurður Árni Jónsson, Sigurður Bjóla Garðarsson, Sigurður Sævarsson, Soffía Björg Óðinsdóttir, Steingrímur Þórhallsson, Stuðmenn, Sunna Gunnlaugsdóttir, Sveinn Lúðvík Björnsson, Unnar Gísli Sigurmundsson, Unnur Sara Eldjárn, Valgeir Sigurðsson, Yrkja III – Tónverkamiðstöð, Þorsteinn Gunnar Friðriksson, Þóranna Dögg Björnsdóttir, Þórunn Gréta Sigurðardóttir, Þórunn Guðmundsdóttir, Þráinn Hjálmarsson, Þuríður Jónsdóttir og Örvar Smárason.

Ríkisútvarpið er ein mikilvægasta menningarstofnun þjóðarinnar. Boðið er upp á fjölbreytt menningarefni í öllum miðlum þess og stuðlað að fjölbreyttri listumfjöllun. Að undanförnu hefur menningarefni verið sett framar í forgangsröðina hjá RÚV, meðal annars með því að leggja aukna áherslu á framleiðslu á leiknu efni.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Helsta ógnin við íslenska tungu er tungusófinn

Tónlist

Hallgrímur fær viðurkenningu Rithöfundasjóðs