Salisbury lávarður ræddi við ráðherra Íhaldsflokksins í umboði drottningar og þeir mæltu með að hún skipaði Harold Macmillan forsætisráðherra, sem hún og gerði. Þegar Macmillan sagði af sér sex árum seinna lagði hann sjálfur til að drottningin skipaði jarlinn af Home í hans stað og varð hún við þeirri ósk.
Þetta þótti mörgum ólýðræðislegt á sínum tíma en fáir mótmæltu opinberlega. Altrincham lávarður var undantekning en hann skrifaði blaðagrein þar sem hann skaut föstum skotum á drottninguna. Það vakti svo mikla reiði að margir afneituðu lávarðinum opinberlega og hann var löðrungaður af vegfaranda sem varð á leið hans eftir að greinin birtist í blöðunum.
Ekki er hægt að segja að Elísabet drottning hafi verið umdeild í embætti þó að embættið sjálft hafi oft verið umdeilt. Móðir hennar og nafna, oftast nefnd drottningarmóðirin, var elskuð og dáð af þjóðinni sem sameiningartákn til dauðadags og það hefur verið óskráð regla í breskum fjölmiðlum að gagnrýna þær mæðgur aldrei með beinum hætti.
Gula pressan herjar á konungsfjölskylduna
Öðru máli gegnir um börn drottningarnarinnar, sem stundum hafa þótt ódæl og ratað á síður slúðurblaðanna fyrir vafasamar sakir. Skilnaður Margrétar, systur drottningarinnar, var konungsfjölskyldunni einnig þungbær og þá fyrst og fremst vegna mikillar og neikvæðar fjölmiðlaathygli.
Fjölmiðlafárið varð fyrst óviðráðanlegt á níunda áratug síðustu aldar og sögurnar sem breska pressan elti uppi voru ekki alltaf byggðar á sannleikanum. Kelvin MacKenzie sem ritstýrði dagblaðinu The Sun á þessum tíma mun hafa sagt á starfsmannafundi að hann vildi fá eitthvað bitastætt um kóngafólkið á forsíðuna til að selja blöð en það skipti engu hvort það væri satt, svo lengi sem ekki væri gert mikið veður yfir því eftirá.