Elísabet níræð - konungsveldi á tímamótum

Mynd með færslu
 Mynd: EPA

Elísabet níræð - konungsveldi á tímamótum

20.04.2016 - 13:40

Höfundar

Elísabet önnur Bretlandsdrottning er níræð í dag. Hún hefur verið á veldisstóli í sextíu og fjögur ár, frá árinu 1952, lengst allra í sögu bresku krúnunnar. Drottningin mun verja deginum í Windsor kastala með konungsfjölskyldunni en deginum er fagnað um allt Bretland og raunar víðar.

Dagskrá drottningarinnar enn ótrúlega þétt, þrátt fyrir háan aldur. Í gær opnuðu konungshjónin sýningu í pósthúsinu í Windsor, í tilefni þess að konunglega breska póstþjónustan fagnar fimm alda afmæli um þessar mundir. Eftir að hlusta á kórsöng var leið þeirra heitið í Alexöndru garðanna í Windsor þar sem drottningin vígði nýjan hljómsveitarpall og hitti nemendur úr sex barnaskólum. Það var rólegur dagur, á morgun tekur drottningin á móti bandarísku forsetahjónunum og öllu þeirra föruneyti.

Britain's Queen Elizabeth II, left, with her husband Prince Philip, right, views enlarged images of stamps to be issued to commemorate her 90th Birthday as she visits the Queen Elizabeth II delivery office in Windsor, England, Wednesday April 20,
 Mynd: AP - POOL Getty
Konungshjónin skoða nýjar frímerkjamyndir af sér og fjölskyldunni á pósthúsinu í Windsor

Minnst tveir afmælisdagar á ári

Fyrir utan tilfallandi daglegar skyldur sem þessar heldur drottningin upp á minnst tvö afmæli á ári, auk sérstakra og íburðarmikilla afmælishátíða á stórafmælum og krýningarafmælum. Drottningin á tæknilega tvo afmælisdaga, hún fæddist tuttugasta og fyrsta apríl en frá því á átjándu öld hefur opinber afmælisdagur breskra þjóðjöfðingja verið mismunandi á milli heimshluta til að tryggja að allir þegnar breska heimsveldisins gætu haldið daginn hátíðlegan í góðu veðri.

Opinber afmælisdagur Elísabetar hefur ýmist verið á fyrsta, öðrum eða þriðja laugardegi júnímánaðar. Síðustu fjóra áratugi hefur dagurinn alltaf verið á bilinu frá ellefta til sautjánda júní.

Þetta skiptir máli af því að opinber afmælisdagur drottningarinnar er almennur frídagur í Bretlandi og í þeim löndum sem enn heyra undir krúnuna. Hún er drottning yfir sextán löndum í dag, þó að verulega hafi kvarnast úr heimsveldinu á síðustu öld. Auk þess er Elísabet leiðtogi breska samveldisins, sem samanstendur af fimmtíu og þremur sjálfstæðum ríkjum sem eru fyrrverandi nýlendur Breta.

epa05045656 Britain's Queen Elizabeth II (C-R) and Prince Philip The Duke of Edinburgh (R) are greeted by the President President of Malta, Marie-Louise Coleiro Preca (C-L) and her husband Edgar Preca (L), at San Anton Palace in Valletta in Malta 28
 Mynd: EPA - EPA POOL
Leiðtogar samveldisríkjanna á fundi með drottningunni

Dóttir mannsins sem varð óvart konungur

Þegar Elísabet fæddist stóð aldrei til að hún yrði drottning, hún var dóttir næsta elsta sonar Georgs fimmta. Hún var skírð Elísabet Alexandra María og skömmu eftir að hún fæddist fóru foreldrar hennar í sex mánaða langa opinbera heimsókn til Ástralíu og skildu barnið eftir eins og hefðir gerðu ráð fyrir. Hún mun hafa grátið sáran við aðskilnaðinn.

Fjölskyldan bjó við Piccadilly í Westminster í Lundúnum og þegar Elísabet var fjögurra ára eignaðist hún systur, Margréti prinsessu. Sjálf var Elísabet eftirlæti afa síns, Georgs fimmta. Breska pressan sagði frá því hvernig hún kætti konunginn og stuðlaði að bata hans þegar hann glímdi við alvarleg veikindi árið 1929, þegar Elísabet var aðeins þriggja ára.

Mynd með færslu
 Mynd: Library of Congress - Wikimedia Commons
Elísabet var eftirlæti afa síns, Georgs fimmta
Mynd með færslu
 Mynd: Time Magazine - Wikimedia Commons
Elísabet þriggja ára
Mynd með færslu
 Mynd: Philip de László - Wikimedia Commons
Elísabet um sjö ára aldur

Það voru mikil tímamót í lífi hinnar ungu prinsessu þegar afi hennar féll frá sjö árum síðar. Tímamótin eru stundum nefnd „Ár hinna þriggja kónga.“ Játvarður krónprins afsalaði sér konungstigninni til að geta kvænst bandarískri unnustu sinni, Wallis Simpson. Það hefði hann ekki getað gert sem konungur og leiðtogi bresku þjóðkirkjunnar þar sem hún var tvífráskilin og átti raunar eftir að ganga frá seinni skilnaðinum.

Albert, hinn óframfærni og feimni faðir Elísabetar, varð því konungur og tók sér nafnið Georg sjötti til minningar um föður sinn. Sagt er að Albert hafi fallið í faðm móður sinnar og grátið þegar hann sagði henni tíðindin; að hann væri orðinn konungur. Hann átti afar erfitt með að koma fram opinberlega og var alls ekki í stakk búinn til að taka við embættinu.

Mynd með færslu
 Mynd: Library of Congress - Wikimedia Commons
Georg sjötti neyddist óvænt til að taka við krúnunni

Eins og kemur fram í óskarsverðlaunamyndinni The King's Speech stamaði kóngurinn og var honum því illa við að halda ræður. Með aðstoð talþjálfa frá Ástralíu tókst honum að læra öndunartækni sem hjálpaði honum með ræðuhöldin og smám saman óx hann í embætti.

Skyldan kallar á stríðstímum

Elísabet var unglingur á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Þá var byrjað að renna upp fyrir henni að hún gæti orðið drottning þar sem konungshjónin áttu engan son. Árið 1940, þegar Elísabet var fjórtán ára, ávarpaði hún þjóð sína í fyrsta sinn á öldum ljósvakans.

Ávarpinu var beint til barna Bretlands, sem mörg voru flutt úr borgum og bæjum án foreldra sinna og komið í fóstur í sveitum vegna loftárása Þjóðverja. Þessir flutningar sköpuðu djúp sár í mörgum litlum sálum sem enn hafa ekki gróið að fullu. Elísabet prinsessa bað börnin að sýna styrk, í þeirri vissu að allt myndi fara vel að lokum og fullorðna fólkið væri að gera sitt allra besta til að það yrði sem fyrst. 

Breska ríkisstjórnin hafði áhyggjur af öryggi konungsfjölskyldunnar þegar loftárásirnar stóðum sem hæst í Lundúnum og hvatti konungshjónin til að senda í það minnsta dætur sínar tvær til Kanada. Þá mælti drottningin orð sem áttu eftir að fara í sögubækurnar: "Börnin fara ekki án mín. Ég fer ekki án kóngsins. Og kóngurinn mun aldrei fara!"

Í staðinn vörðu systurnar fyrri hluta stríðsins í kastölum í Skotlandi og Norfolk en voru síðan fluttar í Windsor kastala þar sem þær dvöldu til stríðsloka. Þær skemmtu sér við að setja upp leiksýningar fyrir börn um jólin og lögðu sitt að mörkum með því að safna um leið framlögum í stríðssjóð Breta.

Elísabet var ekki orðin sextán ára þegar hún var gerð að ofursta í hernum. Nokkru síðar sama ár, 1943, heimsótti hún bækistöðvar breskra fótgönguliða. Tveimur árum síðar var hún skráð í breska heimavarnarliðið og hlaut herþjálfun líkt og hefðin gerir ráð fyrir að erfingjar krúnunnar geri.

Mynd með færslu
 Mynd: Ministry of Information - Wikimedia Commons
Elísabet í hernum

Þegar stríðinu lauk formlega í Evrópu með uppgjöf Þjóðverja í maí árið 1945 brutust út gríðarleg fagnaðarlæti í Lundúnum. Systurnar Elísabet og Margrét, sem þá voru átján og fjórtán ára, hrifust með og klæddu sig í kápur og fóru út til að taka þátt í fagnaðarlátunum á götum borgarinnar.

Það er til marks um breytta tíma að enginn þekkti þær, enda voru börn kóngafólksins ekki fjölmiðlamatur á þessum tíma. Samt höfðu þær lifað öllu lífinu aðskildar frá daglegu amstri þjóðarinnar og sáu ekki almúgan nema við opinberar athafnir. Þarna, í gleðinni og mannhafinu, leið þeim kannski í fyrsta sinn eins og þær væru raunverulega hluti af þjóðinni. Elísabet sagði löngu síðar að þetta hafi verið eftirminnalegasta stundi ævi sinnar.

Umdeilt makaval krónprinsessunar

Elísabet var kynnt fyrir Filippusi, sem varð síðar eiginmaður hennar, þegar hún var barnung. Hann var fjórum árum eldri en sjálf segist Elísabet hafa gert sér grein fyrir að hún væri ástfangin af honum þegar hún var aðeins þrettán ára gömul. Þau voru trúlofuðu árið 1947.

Makaval Elísabetar var umdeilt. Filippus fæddist á Grikklandi og var með prinstign í Grikklandi og Danmörku. Þar að auki var fjölskylda Filippusar peningasnauð og systir hans var gift þýskum nasista í seinni heimsstyrjöldinni.

Þrátt fyrir að Filippus hafi gegnt herþjónustu fyrir Breta í stríðinu gerði breska pressan mikið úr erlendum uppruna hans, líklega að áeggjan stjórnmálamanna sem gátu ekki hugsað sér að hann giftist krónprinsessunni. Hermt er að móðir hennar hafi einnig verið á móti þessum ráðahag og uppnefnt Filippus „Húnann“ svo aðrir heyrðu til. Hún tók hann þó á endanum í sátt.

Mynd með færslu
 Mynd: Sir Gerald Kelly - Wikimedia Commons
Móðir Elísabetar var að sögn ósátt við tengdasoninn í fyrstu

Þrátt fyrir erlendan uppruna Filippusar eru hann og drottningin þremenningar, enda bæði komin af þýsku kóngafólki. Áður en þau gengu í hjónaband í nóvember 1947 afsalaði Filippus sér öllum titlum í Danmörku og Grikklandi, tók upp enska nafnið Philip Mountbatten og skipti um trú. Hann hafði verið í grísku rétttrúnaðarkirkjunni en varð að vera í ensku biskupakirkjunni vegna náinna tengsla hennar við bresku krúnuna. Þá var hann gerður að hertoganum af Edinborg nokkrum dögum fyrir athöfnina.

Konunglegu brúðhjónum bárust þúsund gjafa frá öllum heimshornum og brúðkaupið var allt hið glæsilegasta en þar sem breska hagkerfið var enn í molum eftir stríðið þurfti konungsfjölskyldan að safna skömmtunarmiðum til að geta keypt efni í brúðkaupskjólinn.

Þýskumælandi ættingjar Filippusar voru ekki boðnir í brúðkaupið þar sem of stutt var liðið frá stríðslokum til að Þjóðverjar gætu spókað sig með breska kóngafólkinu, því þurftu meðal annars allar þrjár þálifandi systur hans að sitja heima. Ári eftir brúðkaupið fæddist fyrsta barn þeirra hjóna; Karl Bretaprins. Hjónaband Elísabetar og Filippusar er það lengsta í sögu bresku krúnunnar. 

Á þessum tíma var heilsu kóngsins farið að hraka verulega og Elísabet tók við ákveðnum embættisverkum á borð við að lesa skýrslur ríkisstjórnarinnar um þingstörf og fylgjast með skeytum utanríkisþjónustunnar. Síðustu árin gekk aðstoðarmaður Elísabetar alltaf með skjalatösku sem geymdi þau skjöl sem þyrfti að fylla út við fráfall konungsins og embættistöku Elísabetar. 

Kleif tré sem prinsessa, kom niður sem drottning

Í febrúar 1952 andaðist Georg sjötti á meðan dóttir hans var í opinberri heimsókn í Kenía. Elísabet gisti á hóteli sem var byggt sem einskonar trjákofi og lífvörður hennar lét síðar þau fleygu orð falla að í fyrsta sinn í sögunni hafi ung stúlka klifrað upp í tré sem prinsessa og klifrað aftur niður sem drottning. 

Mynd með færslu
 Mynd: Aberdare Safari - Treetops
Treetops hótelið þar sem Elísabet var stödd þegar faðir hennar féll frá

Elísabet var krýnd drottning rúmu ári síðar og var það í fyrsta sinn sem slíkri athöfn var sjónvarpað. Talið er að um tuttugu milljónir breta hafi fylgst með í beinni útsendingu, að jafnaði um níu manns á hvert sjónvarp í landinu. Til að toppa gleðina bárust sama dag fréttir af afreki Edmunds Hillary sem hafði þá náð á tind Everest fjalls.

Mynd með færslu
 Mynd: Library and Archives Canada - Wikimedia Commons
Elísabet og Filippus eftir athöfnina

Fyrstu gagnrýnisraddirnar heyrast

Elísabet varð drottning á miklum umbrotatímum í bresku samfélagi og á þeim tíma sem breska heimsveldið var endanlega að líða undir lok og breska samveldið að fæðast í núverandi mynd. Eitt helsta baráttumál hennar varð að halda samveldinu saman og skömmu eftir krýninguna lögðu konungshjónin í sjö mánaða heimsreisu til að heimsækja sem flest ríki samveldisins og hefur í dag heimsótt fimmtíu og eitt af fimmtíu og þremur.

Hún varð meðal annars fyrst breskra þjóðhöfðingja til að heimsækja Ástralíu og Nýja Sjáland þrátt fyrir að löndin hafi heyrt undir sömu krúnu frá upphafi. Stórir skarar fólks fylgdu drottningunni hvert fótmál í Ástralíu og áætlað var að um þrír fjórðu þjóðarinnar hafi mætt á opinbera atburði til að hylla hana í eigin persónu.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia; Roke - Wikimedia Commons
Svona leit breska heimsveldið út þegar Elísabet var krýnd drottning

Elísabet var í fyrsta sinn gagnrýnd opinberlega árið 1957 fyrir aðild sína að stjórnarkreppu og fyrir það hvernig hún leysti hana. Súez-stríðið var hugarfóstur forsætisráðherrans Anthony Eden sem skipulagði innrás í Egyptaland ásamt Frökkum og Ísraelsmönnum en það reyndist mikið glapræði.

Mountbatten lávarður, frændi Filippusar og náinn vinur drottningarinnar, lét hafa eftir sér að drottningin væri alfarið á móti stríðinu. Í kjölfarið neyddist Eden til að segja af sér formennsku í Íhaldsflokknum en engin formleg hefð var fyrir því hver tæki við sem forsætisráðherra við slíkar aðstæður. Sjálfur lagði Eden til að drottningin ráðfærði sig við Salisbury lávarð.

Mynd með færslu
 Mynd: IDF - Wikimedia Commons
Ísraelskir hermenn fagna franska flughernum í Egyptalandi

Salisbury lávarður ræddi við ráðherra Íhaldsflokksins í umboði drottningar og þeir mæltu með að hún skipaði Harold Macmillan forsætisráðherra, sem hún og gerði. Þegar Macmillan sagði af sér sex árum seinna lagði hann sjálfur til að drottningin skipaði jarlinn af Home í hans stað og varð hún við þeirri ósk.

Þetta þótti mörgum ólýðræðislegt á sínum tíma en fáir mótmæltu opinberlega. Altrincham lávarður var undantekning en hann skrifaði blaðagrein þar sem hann skaut föstum skotum á drottninguna. Það vakti svo mikla reiði að margir afneituðu lávarðinum opinberlega og hann var löðrungaður af vegfaranda sem varð á leið hans eftir að greinin birtist í blöðunum.

Ekki er hægt að segja að Elísabet drottning hafi verið umdeild í embætti þó að embættið sjálft hafi oft verið umdeilt. Móðir hennar og nafna, oftast nefnd drottningarmóðirin, var elskuð og dáð af þjóðinni sem sameiningartákn til dauðadags og það hefur verið óskráð regla í breskum fjölmiðlum að gagnrýna þær mæðgur aldrei með beinum hætti.

Gula pressan herjar á konungsfjölskylduna

Öðru máli gegnir um börn drottningarnarinnar, sem stundum hafa þótt ódæl og ratað á síður slúðurblaðanna fyrir vafasamar sakir. Skilnaður Margrétar, systur drottningarinnar, var konungsfjölskyldunni einnig þungbær og þá fyrst og fremst vegna mikillar og neikvæðar fjölmiðlaathygli.

Fjölmiðlafárið varð fyrst óviðráðanlegt á níunda áratug síðustu aldar og sögurnar sem breska pressan elti uppi voru ekki alltaf byggðar á sannleikanum. Kelvin MacKenzie sem ritstýrði dagblaðinu The Sun á þessum tíma mun hafa sagt á starfsmannafundi að hann vildi fá eitthvað bitastætt um kóngafólkið á forsíðuna til að selja blöð en það skipti engu hvort það væri satt, svo lengi sem ekki væri gert mikið veður yfir því eftirá.

Mynd með færslu
 Mynd: Newscorp - The Sun
Breska pressan þykir ganga hart fram í umfjöllun um konungsfjölskylduna

Þrátt fyrir að hún væri ekki beint gagnrýnd persónulega varð sífellt algengara að drottningin væri höfð að háði og spotti, t.d. í gamanþáttunum Spitting Image. Líf kóngafólksins var farið að líkjast sápuóperu í augum almennings og aukin umfjöllun um auðæfi konungsfjölskyldunnar gerði hugmyndir lýðveldissinna um afnám krúnunnar vinsælli.

Mynd með færslu
 Mynd: ITV - Spitting Image
Virðugleiki konungsfjölskyldunnar var vægast sagt á undanhaldi

Árinu 1992 lýsir Elísabet sjálf sem versta ári ævi sinnar, annus horribilis. Í mars það ár skildi sonur hennar Andrés prins við eiginkonu sína Söruh Ferguson, mánuði síðar skildi dóttir hennar Anna prinsessa við eiginmann sinn Mark Phillips, í október var eggjum kastað í drottninguna í opinberri heimsókn í Dresden í Þýskalandi, í nóvember brann hluti af Windsor kastala, Karl prins og Díana eiginkona hans skildu að borði og sæng í desember og ríkisstjórn Johns Major lagði skatt á drottninguna í fyrsta sinn og dró úr fjárráðum konungsfjölskyldunnar.

Meira að segja jólahátíðin leiddi til deilna sem enduðu með því að drottningin lögsótti The Sun fyrir að birta jólaræðu hennar án leyfis og fyrir jól. Hún vann málið.

Á sama tíma varð gagnrýni á konungsfjölskylduna almennari og beittari. Drottningin sagði í ávarpi til þjóðarinnar að allir ættu að geta tekið gagnrýni en biðlaði til fólks að sýna sér og fjölskyldu sinni skilning.

Mynd með færslu
 Mynd: Deutsches Bundesarchiv - Wikimedia Commons
Annus horribilis

Konungsfjölskyldan varð fyrir enn öðru áfalli árið 1997 þegar Díana prinsessa fórst í bílslysi í París. Í samræmi við hefðir var ákveðið að sorgarferli konungsfjölskyldunnar væri einkamál og ekki fyrir fjölmiðla. Margir telja það nú hafa verið mistök í ljósi þeirrar gríðarlegu sorgar og geðshræringar sem greip um sig í Bretlandi og víðar um heim við andlát Díönu.

epa00884662 (FILES) File picture dated 05 September 1997 of people gathering in front of a mass of flowers placed in front of Kensington Palace, Princess Diana's former home in London, on the eve of the Princess's funeral following her fatal car
 Mynd: EPA
Blómafjall fyrir utan konungshöllina í Lundúnum eftir að Díana lést

Kóngafólkið þótti ekki í neinum tengslum við sorg almennings og dagblaðið Daily Express leyfði sér að birta mynd af drottningunni á forsíðu undir fyrirsögninni: "Sýndu okkur að þér sé ekki sama". Sama dag ávarpaði Elísabet þjóðina og sagði að viðbrögð fólks hefðu komið sér á óvart, Díana hefði verið einstök manneskja og margt mætti læra af lífshlaupi hennar. Engu að síður sat eftir sú hugsun að viðbrögðin hafi ekki verið í takt við almenning í landinu.

Tímamót, breytingar og framtíðin

Árið 2002, réttri hálfri öld eftir andlát Georgs sjötta, létust bæði móðir og systir drottningarinnar með stuttu millibili. Kannanir á sama tíma sýndu að konungsfjölskyldan naut vaxandi vinsælda eftir langt hnignunarskeið. Elísabet ákvað þá að fara í sína síðustu heimsreisu til að hitta þegna krúnunnar.

Árið 2012 mældust vinsældir hennar meiri en nokkurntíman áður, meira en níutíu prósent Breta sögðust ánægðir með drottninguna og lítið hefur dregið úr þeim stuðningi síðan. Í fyrra náði hún þeim áfanga að verða þaulsetnasti þjóðhöfðingi í sögu Bretlands og er enn við ótrúlega góða heilsu þrátt fyrir árin 90.

epa04912834 (FILE) The file picture dated 25 June 2015 shows Britain's Queen Elizabeth II attending an event at the Paulskirche (Paul's Church) in Frankfurt am Main, Germany. Queen Elizabeth II will become the longest ever reigning monarch in
Elísabet Bretadrottning. Mynd: EPA - DPA / EPA FILE
Aldrei hressari

Miklar vangaveltur hafa verið uppi um framtíð krúnunnar eftir að Elísabet fellur frá. Karl prins er ekki vinsæll og nýtur takmarkaðrar virðingar eftir allt sem á undan er gengið í einkalífi hans var fyrir allra augum í slúðurpressunni. Vilhjálmur sonur hans er mun vinsælli og þykir konungborinn á að líta. Drottningin hefur sjálf sagt að hún hafi ekki hug á að draga sig í hlé til að hleypa öðrum að.

Sérfræðingar telja að eina færa leiðin til að Vilhjálmur yrði konungur á undan föður sínum væri ef Karl afsalaði sér formlega krúnunni sem hann þykir ekki líklegur til að gera eftir að hafa beðið mest alla ævina eftir tigninni. Enn sem komið er virðast flestir Bretar fegnir að ekki sé komið að því að leysa úr þessum málum, drottningin virðist hress og ætlar að verða langlíf eins og móðir hennar sem varð hundrað og tveggja ára.