Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Eldur í dekkjum á Dalvíkurbryggju

12.08.2018 - 01:38
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Kristjánsson - RÚV
Eldur kviknaði út frá flugeldasýningu sem haldin var á lokahátið Fiskidagsins mikla á Dalvík í kvöld. Flugeldasýningin hófst á miðnætti og var flugeldunum skotið upp af bryggjuenda í höfninni. Skömmu síðar stóðu nokkur dekk sem hanga utan á bryggjunni í ljósum logum. Varðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri segir slökkvilið hafa verið fljótt á vettvang og aðeins hafi tekið örskamma stund að slökkva eldinn.

Blankalogn var á Dalvík þegar þetta gerðist svo reykurinn liðaðist bara beint upp í næturhimininn og aldrei var nein hætta á ferðum. Þúsundir Fiskidagsgesta sem flykkst höfðu að höfninni til að horfa á flugeldasýninguna urðu vitni að eldinum en engan sakaði.

Lögregla treystir sér ekki til að meta það á þessari stundu, hversu margir sóttu Dalvíkinga heim á þessum mikla Fiskidegi, en heimamenn eru á því að fjöldinn hafi verið með meira móti í ár. Gestir voru til fyrirmyndar og allt fór þetta vel fram. Lögregla segir vel hafa gengið að stýra umferð til Dalvíkur í kvöld, þótt svolítill “ormur“ hafi myndast á Hámundarstaðarhálsi. Umferð úr bænum gengur enn betur, að sögn varðstjóra hjá lögreglunni. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV