Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Eldum rétt og Mönnum í vinnu stefnt

03.07.2019 - 00:55
Mynd með færslu
 Mynd:
Stéttarfélagið Efling hefur stefnt fyrirtækjunum Eldum rétt og Mönnum í vinnu, ásamt forsvarsmönnum þeirra, vegna meðferðar þeirra á fjórum rúmenskum verkamönnum sem unnu þar í vetur. Eldum rétt keypti vinnuafl hjá starfsmannaleigunni Menn í vinnu í janúar, og bar þannig ábyrgð á að kjör verkamannanna og aðstæður væru sómasamlegar samkvæmt lögum um keðjuábyrgð frá árinu 2018, segir á vef Eflingar.

Lögmannsstofan Réttur sér um málið fyrir hönd Eflingar. Hún fór fram á að þau fyrirtæki sem keyptu vinnuafl af Mönnum í vinnu ábyrgðust kaup og kjör þeirra starfsmanna sem Menn í vinnu brutu á, á meðan þeir gegndu þeim störfum sem þeir voru leigðir til. Öll fyrirtækin gengust við því nema Eldum rétt segir á vef Eflingar.

Kveikur fjallaði um aðbúnað og aðstöðu starfsmanna Manna í vinnu í október. Umfjöllunin vakti mikla athygli, þar sem kom í ljós að verkamönnum var boðið til vinnu á Íslandi á fölskum foresendum.

Mynd: Stefán Aðalsteinn Drengsson / Stefán Aðalsteinn Drengsson

Kristófer Júlíus Leifsson, framkvæmdastjóri Eldum rétt, segir í viðtali við Stundina að hann hafi haldið að allt yrði upp á tíu hjá Mönnum í vinnu eftir umfjöllunina. Þegar Eldum rétt hafi talað við starfsmannaleiguna í janúar hafði fyrirtækið fengið samninga hjá Vinnumálastofnun og klárað samninga við starfsmenn sína.

Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku. Að sögn Stundarinnar segja Rúmenarnir MIV ehf, áður Menn í vinnu, hafa boðið sér vinnu á fölskum forsetindum og nýtt sér bágindi þeirra og fákunnáttu á íslenskum lögum. Ráðningarsamningar þeirra hafi innihaldið ólögmætan, óhóflegan og ósanngjarnan rétt til frádráttar af launagreiðslum. Launaseðlar, reikningsyfirlit og önnur gögn eru lögð fram málinu til stuðnings, og krefst hver starfsmannanna fjögurra 1,7 milljónar króna fyrir sig vegna tjónsins.

Kristófer segir í samtali við Stundina að kröfur Rúmenanna hafi komið honum í opna skjöldu. Tímabilið sem kæran eigi við séu tvær vikur og þar af hafi Rúmenarnir aðeins unnið fjóra daga hjá Eldum rétt. Hann segir að þeim hafi verið boðið fullt starf hjá Eldum rétt eftir að málið kom fyrst upp. Kristófer segir að enginn hafi talað beint við neinn í fyrirtækinu, heldur hafi aðeins komið bréf frá lögfræðingum þar sem fyrirtækið er beðið um að greiða starfsmönnum fyrir alla liði sem teknir voru af þeim. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV