Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Eldsneytisverð skipti neytendur miklu máli

30.11.2015 - 12:33
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
„Þetta auðvitað endurspeglar það að þessi markaður er gríðarlega mikilvægur og skiptir neytendur miklu máli. Þess vegna eru miklir hagsmunir af því fyrir samfélagið að leita allra leiða til þess að samkeppni sé sem virkust og við getum treyst því að neytendur séu að fá góðan díl,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins um frummatsskýrslu þess á eldsneytismarkaði hér á landi.

Páll Gunnar segir að frummat skýrslunnar sýni að þær aðstæður séu ekki fyrir hendi.  „En það er líka frummat þessarar skýrslu að það séu ýmsar leiðir sem geti komið okkur þangað og úrbætur sem hægt sé að ráðast í.“

Bifreiðaeigendur greiddu allt að fjórum og hálfum milljarði króna of mikið fyrir eldsneyti á síðasta ári, samkvæmt frummatsskýrslunni. Verð á eldsneyti hér á landi sé hærra en í flestum vestrænum löndum og sá munur verði ekki skýrður með smæð markaðarins eða auknum kostnaði. 

Vísbending um takmarkaða samkeppni

„Þarna erum við að birta frummat úr ítarlegri rannsókn og við erum að setja fram þá mynd sem blasir við okkur á þessu stigi rannsóknarinnar,“ segir Páll Gunnar. 

Bent er á að endsneytismarkaðurinn sé þjóðhagslega mikilvægur og því sé það áhyggjuefni að rannsókn bendi til að samkeppni sé verulega skert á mikilvægum hluta hans. Í skýrslunni segir að hærra eldsneytisverð hér á landi en víðast hvar á Vesturlöndum verði ekki skýrt með smæð markaðarins eða kostnaði. Þar er búið að taka tillit til skattlagningar og opinberra gjalda. Sterkar vísbendingar séu um að olíufélögin samhæfi hegðun sína með þegjandi samhæfingu. Álagning olíufélaganna sé það mikil að hún gefi vísbendingu um takmarkaða samkeppni. Óhagkvæmur rekstur félaganna bendi einnig til þess. Álagning á eldsneyti sem selt er stórnotendum gefi hins vegar til kynna að þar sé meiri samkeppni. 

Greiddu of mikið fyrir eldsneyti

Samkeppniseftirlitið segir að rannsóknir sýni að olíufélögin hafi hvata og getu til að útiloka nýja keppinauta með því að neita þeim um eldsneyti í heildsölu eða aðgangi að birgðarými. Samkvæmt niðurstöðum skýrslunnar greiddu neytendur fjórum til fjórum og hálfum milljarði króna of mikið fyrir eldsneyti á síðasta ári.

Samkeppniseftirlitið leggur meðal annars til brugðist verði við aðstæðum eða háttsemi sem auðveldi samhæfða hegðun félaganna og hvata þeirra og getu til að útilokað nýja keppinauta og að regluverk verði skoðað. Aðgangur þriðja aðila að heildsölu- og birgðarými eldsneytis verði tryggður og dregið verði úr samrekstri á dreifingar- og birgðastigi. Allir geta komið sjónarmiðum og athugasemdum við skýrsluna að og er frestur til 19. febrúar næstkomandi.

N1 sendi frá sér yfirlýsingu fyrir hádegi þar sem segir að engar vísbendingar hafi komið fram um brot á samkeppnisreglum og segir að skýrslan staðfesti að virk samkeppni ríki. Félagið vísar því alfarið á bug að meðvituð eða ómeðvituð samhæfing verðlagningar sé til staðar.