Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Elding varð fimm manns að fjörtjóni

19.05.2018 - 05:35
Erlent · Asía · Kambódía · Veður
Mynd með færslu
 Mynd: CC - Pxhere
Fimm manneskjur létu lífið þegar eldingu sló niður í suðvesturhluta Kambódíu á fimmtudag. Hjón og fjögurra ára barn þeirra eru á meðal hinna látnu. Yfirvöld í Kambódíu greindu frá þessu á föstudag. Rigningatímabilið er að hefjast í Kambódíu og fólkið hafði leitað skjóls vegna skyndilegs úrhellis og þrumuveðurs í fjalllendi í Koh Kong-héraði þegar eldingunni sló þar niður, með þessum hörmulegu afleiðingum.

 

Þrumuveður eru hvort tveggja tíð og skæð í Kambódíu. AFP-fréttastofan hefur eftir Keo Vy, talsmanni Almannavarna í Kambódíu, að eldingar hafi nú orðið fimmtíu manns að fjörtjóni í landinu það sem af er þessu ári. Á sama tíma í fyrra hafði 41 látist af þessum völdum. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV