Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Eldgos hafið í Holuhrauni

29.08.2014 - 00:47
Mynd með færslu
 Mynd:
Eldgos er hafið í Holuhrauni, um 10 km norðan Vatnajökuls. Samkvæmt upplýsingum frá Almannavörnum gýs á um kílómetra metra langri, samfelldri sprungu, en upplýsingar um lengd sprungunnar hafa verið á reiki. Gosinu er lýst sem rólegu hraungosi.

Stefna sprungunnar er norðaustur-suðvestur. Starfsmenn Veðurstofunnar eru staddir á þessum slóðum við að setja upp mæla. Gosið sést ekki á radar og talið er að öskuframleiðsla sé óveruleg. Vísindamenn á svæðinu telja að gosið sé nokkra kílómetra norður af sporði Dyngjujökuls. Hraun renni til suð-austurs og virðist renna hratt. 

Veikur gosórói sést á jarðskjálftamælum, í samræmi við hraungos án verulegrar sprengivirkni. Engin merki sjást um jökulhlaup. 

Litakóða fyrir svæðið í kringum Bárðarbungu hefur verið breytt í rautt. Það þýðir að allt blindflug um svæðið er bannað. 

Lokanir vegna flóðahættu eru þær sömu og verið hafa síðustu daga. 

Veðurstofan tilkynnti um eldgosið skömmu eftir miðnætti. Fyrstu ummerki um gos á yfirborði sáust fyrst á vefmyndavélum um miðnætti en þar sást greinilega að gos væri hafið. Um leið tóku fréttastofu að berast tölvupóstar og símhringingar frá almenningi um að gos væri hafið. Bjarminn hefur stækkað greinilega síðan um miðnætti.

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur sagði í fréttum RÚV í gærkvöld að berggangurinn undir Holuhrauni sem valdið hefur sprungum á yfirborði þess gæti brotið sér leið þar upp. Gangurinn væri aðeins tvo kílómetra undir yfirborðinu.

Myndin er úr vefmyndavél Mílu, sem er staðsett á Vaðöldu, um 15 til 20 kílómetra frá gosinu. Hægt er að fylgjast með beinni útsendingu úr vefmyndavélinni í sjónvarpi á RÚV.

Kortið hér að neðan sýnir svæðið sem lokað hefur verið fyrir blindflugi. Tvö neðstu kortin sýna staðsetningu gossins.