Undrarými er sjötta ljóðabók Sigurlínar Bjarneyjar sem löngu hefur skipað sér sess meðal áhugaverðustu ljóðskálda okkar af yngri kynslóð. Sigurlín Bjarney hefur gjarnan sett ljóðabókum sínum einhvers konar skipan sem hún leikur sér í um leið og ljóð hennar fara um víðan völl. Þannig hét fyrsta ljóðabók hennar Fjallvegir í Reykvík (2007). Í henni er ferðast um borgina milli GPS hnita fjallasýnar hennar og minnt á allt það líf sem í fjöllunum býr í formi þjóðsagna og sem líka eru á sveimi í borginni. Ljóðabókin Bjarg (2013) rúmaðist í íbúðarblokk. Þar er ljóðmælandi íbúarnir í hinum ýmsu íbúðum. Þeir tjá sig um lífið og tilveruna og segja þannig að sögu sína með ákveðnum hætti.
Í viðtalinu sem hér má heyra segir Sigurlín meðal annars að það sé ótrúlegt hversu margvíslegir hlutir rúmast innan strangra skorða eða lítils rýmis og vitnar þar til sögu sinnar Jarðvist sem hún birti í tímaritinu 1005 (2013) og fjallar um námuverkamenn sem lokast hafa inni í námu.
Ljóð Sigurlínar Bjarneyjar einkennast að frjóum leik með orðin og tungumálið og ríkulegum og oft mjög frumlegum vísanaheimi.
Sigurlín Bjarney er fædd í Hafnarfirði en ólst upp í Sandgerði. Hún er með meistaragráðu í íslenskum bókmenntum og ritlist frá Háskóla Íslands og hefur stundað rannsóknir á sautjándu aldar hugmyndasögu.