Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Eldarnir í Alberta af mannavöldum

15.06.2016 - 05:29
epa05295588 A handout picture made available by NASA's Earth Observatory on 09 May 2016 shows a false-color image acquired by the Enhanced Thematic Mapper Plus (ETM+) on the Landsat 7 satellite of the wildfire that burned through Fort McMurray (C-top
Eldarnir eyddu um 2.400 heimilum og öðrum byggingum og loguðu á um 5.000 ferkílómetrum lands þegar mest var.  Mynd: EPA - NASA/EARTH OBSERVATORY
Skógareldarnir sem geisað hafa í Kanada síðan í byrjun maí kviknuðu að öllum líkindum af mannavöldum. Lögregla í Albertafylki lýsir nú eftir aðstoð almennings við rannsókn á eldsupptökunum. Sérfræðingar fylkisins í skógar- og gróðureldum komust að þeirri niðurstöðu eftir umfangsmiklar rannsóknir að útilokað sé að eldarnir hafi kviknað út frá eldingu. Fátt annað komi því til greina en að mannshöndin hafi komið þarna að verki með einhverjum hætti.

Ekkert er fullyrt um að brennuvargar hafi vísvitandi kveikt eldana, einungis að þeir séu nær örugglega af óskilgreindum mannavöldum. Hvort rekja megi þá til ólöglegs athæfis, gáleysislegrar meðferðar elds eða hreinnar og beinnar slysni sé ómögulegt að segja án frekari rannsókna og upplýsinga, og þá helst frá sjónarvottum. Því biður lögregla hvern þann sem var á ferli nærri upptökum eldanna um það leyti sem þeir kviknuðu að gefa sig fram, ef vera kynni að þeir hefðu einhverjar upplýsingar sem gagnast geta til að komast að hinu sanna.

Eldanna varð fyrst vart þann 1. maí, um 15 kílómetra suðvestur af olíuvinnslubænum Fort McMurray. Þeir breiddust hratt út og aðeins nokkrum dögum síðar þurfti að rýma bæinn, nærliggjandi þéttbýliskjarna og olíuvinnslustöðvar. Hátt í 100.000 manns þurftu að yfirgefa heimili sín og vinnubúðir.

Eldarnir fikruðu sig síðan norður og austur fyrir Fort McMurray, fjær mannabyggðum, og teygðu tungur sínar yfir í Saskatchewan-hérað. Ekki hefur enn tekist að ráða niðurlögum eldanna að fullu en þeir hafa minnkað til muna. Slökkvilið fullyrðir að ef veðurspár gangi eftir muni takast að slökkva þá fáu elda sem enn loga innan tíðar.