Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ekkillinn finnur til með skipstjóranum

25.06.2017 - 19:24
Mynd: Michael Boyd / Michael Boyd
Ekkill konunnar, sem lést í slysi við Jökulsárlón fyrir tveimur árum, segist finna til með skipstjóra hjólabátsins sem ók yfir hana. Öryggismál við lónið hafi hins vegar verið í algjörum ólestri.

Hjónin Michael Boyd og Shelagh Donovan voru ásamt syni sínum á ferðalagi um Ísland í ágúst árið 2015. Ferðalagið var ánægjulegt þangað til þau komu í Jökulsárlón. Þar voru þau að fylgjast með þyrlu lenda við lónið þegar hjólabát var bakkað á þau. Fjölskyldan féll öll við og Shelagh varð undir afturhjóli bátsins og lést samstundis. Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur nú ákært skipstjórann fyrir manndráp af gáleysi, en hann var ekki með réttindi til að stýra bátnum. Hann var 22 ára þegar slysið varð.

„Mér þótti rétt að ákæran yrði lögð fram og því er ég ánægður að eitthvað hafi loks gerst,“ segir Boyd. „Þetta var afleiðing þess að engar öryggisráðstafanir voru gerðar við Jökulsárlón. Það voru engin viðvörunarskilti, engar girðingar á svæðinu og of fáir starfsmenn á vettvangi. Mér skilst að ekki sé gerð krafa um bakkmyndavél í hjólabátum samkvæmt íslenskum lögum. Hún var þó til staðar í þessum bát en hún var í ólagi. Augljóslega kannaði enginn almennilega hvort fólk væri fyrir aftan farartækið,“ segir Boyd.

„Annars finn ég ég til með þessum unga manni. En hins vegar, vegna aðgæsluleysis, ók hann yfir konuna mína og varð henni að bana.“

Versti dagur ævinnar

Boyd segist ekki skilja hvers vegna rannsókn málsins hefur tekið næstum tvö ár. Þegar hann er spurður hverju hann voni að dómsmálið skili, segir hann að það sé íslenskra dómstóla að ákveða það.

„Konan mín lést og var tekin frá mér og fjölskyldunni, algjörlega að óþörfu, af völdum þessa fyrirtækis og allra þessara þátta sem ollu þessu einkennilega slysi.“

Boyd segir að þeir sem starfa við ferðamennsku á Íslandi verði að gæta að því að öryggismál séu í lagi.

„Þetta var ágætt frí þangað til slysið varð. Einn skemmtilegasti dagur ævinnar breyttist í þann versta á ævinni. Við vorum í heimsókn í rándýru litlu landi. Ég get ekki tjáð mig um aðstæður á ferðamannastöðum almennt en Jökulsárlón er vissulega mjög afskekktur staður þar sem þúsundir ferðamanna koma á hverju ári. Ég held að þessi atburður sýni greinilega að auknar öryggisráðstafanir hefðu átt að liggja fyrir. Þá hefði slysið aldrei orðið og konan mín væri hjá mér í dag. En þess í stað þarf ég að heimsækja grafreit hennar,“ segir Boyd.