Ekki verið á föstum launum síðan 1979

Mynd:  / 

Ekki verið á föstum launum síðan 1979

06.12.2018 - 17:10

Höfundar

Á dögunum voru sagðar fréttir af því að lagt verði til að Bubbi Morthens fái heiðurslaun listamanna. Launin eru veitt þeim sem hafa skarað fram úr við listköpun á starfsævi sinni. „Þetta ferðalag er búið að vera svakalegt,“ segir Bubbi.

Alþingi veitir árlega 25 listamönnum heiðurslaun á fjárlögum. Þorsteinn frá Hamri, ljóðskáld, var þar á meðal en hann lést á árinu. Nái tillagan fram að ganga kemur Bubbi inn í stað hans.

„Hégóminn er harður húsbóndi – og þetta kítlar hégómann. En um leið gleður þetta mig óendanlega,“ segir Bubbi í viðtali við Eirík Guðmundsson. „Mér fannst þetta mikill heiður hreint út sagt. Ég hugsaði í gær, þegar ég frétti af þessu, fór til baka og rifjaði upp æsku mína í Vogunum þar sem að draumar mínir snerust allir um það að mig langaði að verða eitthvað. Eitthvað sem tengdist músík var efst á baugi. Þetta ferðalag er búið að vera svakalegt.“

Mynd:  / 
Bubbi frumflutti nýtt lag í Lestinni á Rás 1.

Bubbi hefur ekki verið á föstum launum síðan vorið 1979 þegar hann starfaði í Kassagerð Reykjavíkur. Þar kynntist hann bræðrunum Mike og Danny Pollock og úr varð hljómsveitin Utangarðsmenn.

Hann segir að starfslaunin geti skipt hann miklu máli því plötusalan sé ekki sú sama og áður. „Ég hef alltaf getað lifað af með því að selja plötur en það seljast engar plötur í dag. Tónlistin mín er í rauninni ekkert að gefa mér þær tekjur sem ég hafði. Ég er að fá einhverjar tekjur af Spotify en þær eru svo dásamlegar litlar að það er krúttlegt.“ Starfslaunin skapi honum tryggari aðstæður og geri honum kleift að vakna klukkutíma fyrr á morgnana og byrjað að skrifa án þess að vera í kvíðakasti.

Bubbi hefur alla tíð verið gagnrýnin á samfélagið og segir að það verði engin breyting þar á þrátt fyrir upphefðina. „Ef þú ritskoðar sjálfan þig getur þú bara skotið þig. Þá geturðu bara farið og fengið þér byssu og sett hana í muninn. Það er skylda allra radda sem hafa eitthvað vægi að spegla samfélagið. Um það snýst listin að einhverju leyti. Að spegla ástina er mikilvægt. Að spegla hatur er mikilvægt. Að spegla spillingu eða þorp úti á landi í vandræðum. En þú verður að hafa erindi og hafa eitthvað að segja.“

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Bubbi fær heiðurslaun listamanna

Popptónlist

Sendir sjálfum sér hugmyndir á hverjum degi

Bókmenntir

Bubbi yrkir um áföll í nýrri bók

Menningarefni

Bubbi glímir við kvíða fyrir tónleika