Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Ekki til neins að fara á skjön við söguna

Mynd: RÚV / RÚV

Ekki til neins að fara á skjön við söguna

12.11.2017 - 10:00

Höfundar

Ólafur Jóhann Ólafsson fjallar um atburði sem áttu sér stað í Landakotsskóla í nýjustu skáldsögu sinni, Sakramentið, þar sem starfsmenn kaþólsku kirkjunnar beittu nemendur kynferðislegu ofbeldi. „Þetta eru hlutir sem að gerðust hér á Íslandi,“ segir Ólafur. „Stundum gleymum við því að miður skemmtilegir hlutir geta gerst á Íslandi sem gerast líka í útlöndum.“

Skáldsagan Sakramentið eftir Ólaf Jóhann Ólafsson er saga franskrar nunnu sem send er til Íslands á vegum Páfagarðs til að grennslast fyrir um ásakanir um misferli í Landakotsskóla. Ljóst er að nokkrar persónur bókarinnar eiga sér fyrirmyndir í veruleikanum. „Ég ákvað að fara ekki í neinar felur með það,“ segir Ólafur í viðtali við Egil Helgason í Kiljunni. „Þetta var þannig mál að það hefði ekki verið til neins að fara á skjön við söguna.“

Mynd með færslu
 Mynd: Forlagið

Ólafur gekk í Öldugötuskóla í Vesturbænum sem barn. Hann segir að skólinn hafi verið þekktur sem villingaskóli og þar hafi oft verið mikill hamagangur í krökkunum. „Á meðan það var hávaði í Öldugötuskóla, þá var þögn fannst manni í Landakotsskóla. Þar var agi, en maður vissi náttúrulega ekkert um svona lagað. Ég man það að ef maður var í fótbolta þá vildi maður ekkert að boltinn færi alltof nálægt heimilum þessa fólks; að ná í hann upp að dyrum hjá því. Maður hafði ákveðna tilfinningu fyrir þessu og hún var ekkert alltaf góð.“

Ólafur lagðist í rannsóknir fyrir verkið. Fór inn á spjallsíður þar sem fólk deildi sögum af Landakotsskóla. „Kveikjan að upphafsskaflanum er fengin úr frásögn þessa fólks,“ segir hann. „Manni hefði varla dottið í hug sumt af því sem að þarna gerðist ef maður hefði ekki haft heimildir beint frá fólkinu sem varð fyrir barðinu á þeim.“

Rætt var við Ólaf Jóhann Ólafsson í Kiljunni.