Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ekki snjóað meira á Akureyri í 10 ár

11.12.2015 - 17:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Það er hægt að skipuleggja snjómokstur í bænum betur, segir bæjarfulltrúi á Akureyri. Eigi hinsvegar að eyða meiri fé í moksturinn þarf að skera niður annars staðar. Síðasta vetur var uppsöfnuð snjódýpt á Akureyri þrír metrar og hefur ekki snjóað meira á Akureyri í að minnsta kosti tíu ár.

Ekki allir sáttir við moksturinn
Það hefur snjóað mikið á skömmum tíma á Akureyri og síðastliðnar tvær vikur hefur uppsöfnuð snjódýpt í bænum náð einum metra sem er þriðjungur af allri uppsafnaðri snjódýpt síðasta vetrar það eru ekki allir íbúar sáttir við hvernig gengið hefur að hreinsa íbúagötur.

Anna Heiðmar og Hera Jóhanna Heiðmar búa í Hrafnagilsstræti og þær segjast telja að það megi gera betur.

„Það eru sérstaklega litlu göturnar, við erum til dæmis að bera út Dagskrána og það er mikið af litlum götum sem við þurfum að fara inní.“

Linda Björk Pálsdóttir íbúi í Klettastíg segist búa í erfiðri götu þar sem oft skafi mikið.

Yfirleitt er ég nokkuð ánægð auðvitað má alveg gera betur en mér finnst líka rosalega kósý þessir dagar þegar að allt er á kafi í snjó og maður sér fólk úti að labba með snjóþotu og gönguskíði jafnvel.

Hersteinn og Birna íbúar í Reynilundi eru sátt við snjómoksturinn í bænum.

„Það er náttúrulega búið að snjóa svo mikið og það þarf mikið að moka maður getur ekki ætlast til þess að það sé komið samdægurs.

Getur tekið 3-4 daga að hreinsa bæinn
Logi Már Einarsson bæjarfulltrúi segir að það geti tekið þrjá til fjóra daga að moka bæinn þegar að mikið hefur snjóað. Hann segir það kannski ekki ásættanlegt að ekki sé búið að moka sumar íbúagötur tveimur dögum eftir að það hættir að snjóa en þetta snúist um forgangsröðun. En telur hann að hægt sé að moka bæinn þannig að allir séu sáttir

 „Já ég tel það við þurfum hinsvegar að skipuleggja það betur og við þurfum líka að horfa á það að það eru 250 manns á bak við hvern kílómetra á götum í Reykjavík og það eru 150 á bak við hvern kílómetra hérna. Það voru 200 bærinn hefur gisnað það þarf að þétta hann.

Eigi að eyða meiri í mokstur þarf að taka það af öðru
Undafarin ár hefur kostnaður vegna snjómoksturs ítrekað farið fram úr áætlunum samt sem áður ætti það ekki að koma neinum á óvart að á Akureyri snjóar og það talsvert mikið. 

 „Ég ætla ekki að afsaka það, kannski erum við að ljúga að sjálfum okkur og við verðum að segja hlutina eins og þeir eru ef að við teljum okkur ekki geta uppfyllt væntingar fólks um snjómokstur þá verðum við bara að segja það í fjárhagsáætlun og standa við það. Kannski verðum við að láta meiri pening í þetta en þá verðum við að taka það af einhverju öðru.

Freyja Dögg Frímannsdóttir
Fréttastofa RÚV