Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Ekki skattaparadís mengunar

22.11.2011 - 19:10
Mynd með færslu
 Mynd:
Stóriðjufyrirtæki mótmæla harðlega hækkun kolefnisgjald. Forstjóri Elkem telur að ef af verður hætti járnblendiverksmiðjan starfsemi. Fjármálaráðherra segir að Ísland verði ekki skattaparadís fyrir mengandi starfsemi.

Kolefnisskattur hefur hingað til aðeins verið lagður á bensín og olíu. Um næstu áramót eiga að bætast við kolefni í föstu formi sem eru notuð í framleiðslu á kísiljárni. Stóriðjan, þar á meðal Elkem, er undanþegin þeirri greiðslu samkvæmt samningi við stjórnvöld en sá samningur rennur út í lok næsta árs. Þá á að stíga fyrsta skrefið af þremur í að skattleggja allt kolefni óháð orkugjöfum.

Forstjóri Elkem á Íslandi segir í bréfi til þingmanna og bæjarfulltrúa í dag að þetta þýði að kolefnisskattur á fyrirtækið verði árið tvö þúsund og fimmtán tvöfalt meiri en meðalhagnaður fyrirtækisins síðustu tíu árin. Þetta þýði að forsendur fyrir frekari rekstri Elkem á Íslandi verði að engu.
Fjármálaráðherra segir að þessi mál verði skoðuð gaumgæfilega áður en breytingarnar sem taka eiga gildi eftir rúmt ár verða lögfestar. Hins vegar sé þessi skattlagning minni á Íslandi en í mörgum nágrannalöndunum.

„Það stendur ekki til að Ísland verði einhver skattaparadís fyrir mengandi starfsemi sem er orðin skattlögð alls staðar erlendis. Það er ekki það sem við viljum, er það?“ sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, aðspurður um bréf Einars.

Steingrímur bendir á að aldrei hafi verið samið um að almennar skattabreytingar komi ekki við þessi fyrirtæki eins og önnur. „Og fyndist mönnum það sanngjarnt ef að innlendu atvinnugreinarnar sem fyrir eru, öll umferðin, sjávarútvegurinn, aðrir slíkir sem nota mikið af jarðefnaeldsneyti, að þeir borgi kolefnisgjald en þessi iðnaður sé algjörlega laus við það?“