Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ekki rýmt strax í Kelduhverfi og Öxarfirði

23.08.2014 - 14:37
Mynd með færslu
 Mynd:
Engin ákvörðun hefur verið tekin um rýmingu í Kelduhverfi og Öxarfirði, samkvæmt upplýsingum Almannavarna. Fólk þar er beðið um að fylgjast með fjölmiðlum og hafa farsíma til taks. Byrjað er að flytja ferðamenn úr Jökulsársgljúfrum og frá Dettifossi. Gosið í Dyngjujökli er talið vera lítið

Engin ákvörðun hefur verið tekin um að loka hringveginum, en verði það gert, verður lokað við Kröfluafleggjara í vestri og við gatnamótin til Vopnafjarðar í austri samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. 

Lítið gos hófst um klukkan tvö í bergganginum í Dyngjujökli. Gosið er talið vera lítið, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni. Jökullinn á þessum stað er um 500 metra þykkur og óvíst er hversu langur tími líður þar til gosið kemst upp úr jöklinum. Veðurstofan hefur bannað flugumferð á stóru svæði í kringum Bárðarbungu. Mikil ókyrrð hefur verið á þessum slóðum í morgun.