Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Ekki okkar að vera fyndin“

Mynd: IU / IU

„Ekki okkar að vera fyndin“

27.02.2020 - 15:10

Höfundar

Fyrsta Íslandsmótið í uppistandi fer fram í Háskólabíó í kvöld 27. febrúar en þar mætast tíu keppendur og þurfa að sannfæra áhorfendur og dómnefnd hvert þeirra sé best í uppistandi.

Kjartan Atli Kjartansson er annar af kynnum kvöldsins og hann segir vel hægt að keppa í þessu listformi. „Er ekki hægt að keppa í öllu? Það er lagakeppni í Eurovision, það er verið að verðlauna fyrir kvikmyndir það er alltaf verið að keppa í listum.“

Áður hefur verið keppt í uppistandi á Íslandi en þá kallaðist keppnin einfaldlega Fyndnasti maður Íslands og á meðal sigurvegara þar má nefna Pétur Jóhann Sigfússon sem nýverið fagnaði því að 20 ár eru frá því að hann var valinn sigurvegari í þeirri keppni. 

Keppnin fer þannig fram að hver keppandi fær átta mínútur á sviðinu til að heilla bæði salinn og svo sérstaka dómnefnd, en hana skipa Edda Björgvinsdóttir, Fannar Sveinsson, Gummi Ben og Logi Bergmann, Pálmi Guðmundsson, Steinunn Camilla og Vala Kristín Eiríksdóttir. Kjartan Atli segist vera feginn að vera kynnir en ekki keppandi fyrir framan dómnefndina, en hann er kannski þekktastur fyrir að vera íþróttafréttamaður. „Þegar maður mætir í stórleiki þá þarf maður að standa sig undir pressu, þarna eru þandar taugar og skynfærin fara öll af stað. Það verður í gangi hjá þeim sem taka þátt. Koma upp á svið og líta á þetta sem úrslitaleik.“

Aðspurður hvort að kynnarnir þurfa ekki að vera fyndnir líka segist Kjartan Atli treysta á að Júlíana Sara Gunnarsdóttir sjái um að vera sú fyndna á meðan hann sér um að jarðtengja alla, en hún er kynnir kvöldsins ásamt Kjartani Atla. „Það er kannski dáldið pressulaust að vera kynnir þarna því það er ekki okkar að vera fyndin, þau eiga að vera fyndin sem eru að keppa.“