Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ekki nóg að banna snjallsíma í kennslustundum

05.09.2018 - 16:03
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Fræðslunefnd Fjarðabyggðar hefur lagt til að nemendum verði bannað að koma með snjalltæki í skólann. Bann við notkun í kennslustundum þykir ekki hafa dugað. Tækin eru þó talin svo mikilvæg við kennslu að ekki sé hægt að leggja bannið á fyrr en skólarnir eignast sjálfir nóg af slíkum græjum.

Í snjallsímum eru tölvuleikir sem halda nemendum frá félagslegum samskiptum í frímínútum og samfélagsmiðlar sem geta valdið truflun í kennslu. Í Fjarðabyggð eins og víðar meta skólayfirvöld hvað gera skuli. Fræðslunefnd kallaði eftir áliti frá Skólaskrifstofu Austurlands, skólastjórum grunnskóla Fjarðabyggðar og persónuverndarráðgjafa sveitarfélagsins.

Vilja auðvelda nemendum að einbeita sér

Þóroddur Helgason fræðslustjóri segir að skólastjórar hafi stutt bann svo lengi sem tækjakosturinn yrði bættur. „Það er það sem liggur að baki hjá bæði fræðslunefnd og bæjarráði að tækjavæða vel skólana. Þannig að það sé óþarfi fyrir nemendur að vera að mæta með snjallsímana í tímana. Auðvitað erum við fyrst og fremst þarna að aðstoða nemendur þannig að þeir eigi auðveldra með að einbeita sér,“ segir Þóroddur.

„Pípa í töskum“

Hingað til hefur grunnskólanemendum í Fjarðabyggð verið bannað að nota snjalltæki í kennslustund nema með leyfi kennara. Það hefur ekki þótt duga. „Það eru auðvitað brögð að því að símarnir hafi truflandi áhrif. Að þeir séu að pípa í töskum og hafi þannig slæm áhrif. Eða séu bara svolítið að stela athyglinni frá námi eða félagslegum samskiptum,“ segir Þóroddur.

Í umsögn persónuverndarfulltrúa Fjarðabyggðar sagði að mikilvægt væri að takmarka notkun símtækja eins mikið og hægt er þar sem myndataka á skólalóðinni í óþökk annarra gæti haft alvarlegar afleiðingar.

Bitni á námsárangri og líðan barna

Sigurður Ólafsson, formaður fræðslunefndar, segir að niðurstaða Skólaskrifstofu Austurlands hafi verið ótvíræð. Truflun frá snjallsímum og ekki síst notkun á samfélagsmiðlum í skólum bitni á athygli, námsárangri og líðan barna. Fræðslunefnd lagði til að viðunandi búnaður yrði keyptur og samhliða yrði nemendum bannað að mæta með tækin nema með undanþágu. Bæjarráð tók vel í tillöguna en bað um nánari útfærslu og reglur um hvernig eigi að framfylgja banni.