Ekki náttúran sem virkjar sköpunarkraftinn

Mynd: RÚV/samsett mynd / RÚV/samsett mynd

Ekki náttúran sem virkjar sköpunarkraftinn

28.02.2018 - 10:42

Höfundar

„Við vildum einfaldlega skilja hvað væri í gangi á Íslandi, með það í huga að mögulega nýta niðurstöðurnar og læra af Íslendingum,“ segir Barbara Kerr, sálfræðiprófessor við Háskólann í Kansas, sem fer fyrir rannsókn á sköpunargáfu Íslendinga.

„Það virðist oft vera að við þurfum útlendinga til að átta okkur á því að þetta sé sérstakt, því við erum bara eins og fiskurinn í vatninu sem áttar sig ekki á því að hann er umlukinn vatni. Við tökum þessu öllu sem sjálfsögðum hlut en þess vegna er svo mikilvægt að við áttum okkur á því að þetta er alls ekki sjálfsagt,“ segir Berglind Rós Magnúsdóttir, dósent á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, um nýlega bandaríska rannsókn á sköpunargáfu Íslendinga.

Rannsóknin hefur vakið töluverða athygli frá því að hún var birt. Frá henni hefur verið sagt í ýmsum miðlum vestanhafs. Eldri rannsóknir hafa sýnt að Íslendingar eru skapandi miðað við aðrar þjóðir og rannsókn þessi reynir að greina hvað það er sem geri Íslendinga jafn skapandi og raun ber vitni.

Barbara Kerr, sálfræðiprófessor við Háskólann í Kansas, fer fyrir rannsókninni. Yfirlýst markmið rannsakenda var að reyna að finna hvað það er sem veldur því að Íslendingar eru skapandi, hvort það er meðfæddur eiginleiki, hvort það eru áhrif náttúrulegs og manngerðs umhverfis eða hvort það eru félagslegir þættir. Fyrri rannsóknir hafa fyrst og fremst litið á persónuleika Íslendinga en þessi rannsókn lítur til enn fleiri þátta, skoðar menningarlegt og félagslegt samhengi auk þess að stundaðar voru vettvangsrannsóknir og tekin viðtöl við Íslendinga.

„Við vildum einfaldlega skilja hvað væri í gangi á Íslandi, með það í huga að mögulega nýta niðurstöðurnar og læra af Íslendingum,“ segir Kerr í samtali við vefrittið Futurity sem miðlar helstu rannsóknum bandarískra háskóla.

Það er styst frá því að segja að niðurstöður rannsóknarinnar gefa nýja mynd af skapandi Íslendingum. Hingað til hefur verið haldið fast í þá rómantísku hugmynd að Íslendingar séu á einhvern hátt öðruvísi gerðir af náttúrunnar hendi en aðrar þjóðir, að skapandi einstaklingar séu í sérstaklega miklu sambandi við náttúruna. Niðurstöður rannsóknarinnar benda hins vegar til þess að það sé fyrst og fremst samfélagsgerðin sem gerir Íslendingum kleift að hafa tíma og getu til að vera skapandi. Að þættir eins og tími, frelsi, daggæsla barna, jafnrétti kynjanna og umburðarlyndi séu meðal helstu drifkrafta sköpunar.

„Við eigum það til að líta á skapandi börn hér í Bandaríkjunum sem vandamál,“ segir Kerr. „Íslendingar, aftur á móti, líta ekki á börn sem eru á einhvern hátt öðruvísi en normið sem vandamál heldur eru börn, sem hugsa sjálfstætt og skapandi, hvött til að vera það áfram.”

„Þrátt fyrir að Íslendingar virðist ekki trúa því að við búum við mjög skapandi menntakerfi þá er það niðurstaða þeirra að það sé einmitt þannig. Í Bandaríkjunum er til dæmis ekki verið að kenna fólki textíl, smíðar og þau tól og tæki sem eru hluti af því að geta valið um sköpunartækni,“ segir Berglind Rós. „Hér höfum við haldið í þetta, þó þetta hafi vikið til hliðar annars staðar fyrir því að kenna meira í læsi og stærðfræði og þessum bóklegu greinum sem eru mældar á alþjóðlegum kvörðum og virðast alltaf stýra meira og meira því sem við hugsum um menntun.“

Rætt var við Berglindi Rós í Víðsjá.  Hægt er að hlusta á viðtalið hér fyrir ofan.